135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:26]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ef við ætlum að temja þessa skepnu þá má það ekki vera einhver kattarþvottur. Menn þurfa að vera á verði gagnvart því að þótt menn viðurkenni þetta í orði kveðnu, að það verði að hafa einhverjar reglur og menn segja að fyrirtækin verði að ástunda samfélagslega ábyrgð o.s.frv., þá gildir hið sama um félagslega sviðið og svið umhverfismálanna, að einhver ódýr grænþvottur þar gerir okkur ekkert gagn. Slíkt drepur málinu á dreif og tefur fyrir því að raunverulega sé tekið á vandanum. Í grunninn snýst þetta náttúrlega um það hvaða hagsmunir eiga að koma fyrst. Hvað er mikilvægast? Í mínum huga er enginn vafi að við eigum að nálgast þetta út frá hinu mannlega samfélagi og umhverfinu og setja leikreglurnar á grundvelli þess og kosti þá það sem það kosta vill í takmörkunum og stýringu á markaðsöflunum og hagsmunum fjármagnsins.

Einu sinni var sagt á Íslandi: Manngildi ofar auðgildi. Meira að segja var Framsóknarflokkurinn einu sinni svo vinstri sinnaður að hann notaði þetta slagorð, (Gripið fram í: Og notar það enn.) og er jafnvel enn já, þarna sjáið þið. Þetta er að mörgu leyti fallegt slagorð og kannski er það einmitt lýsandi fyrir það um hvað þetta snýst. Hvort er mikilvægara, manngildin, hin húmanísku sjónarmið, hagsmunir samfélagsins og að sjálfsögðu umhverfisins eða hagsmunir fjármagnsins og gróðafíkn þess?

Leiðsögnin er að mínu mati fyrir hendi í regluverki Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Þar er kveðið á um að framvindan verður ekki sjálfbær nema þessir þættir séu í góðu jafnvægi og eitt sé ekki á kostnað hins. Þetta snýst þar af leiðandi um að temja hinn óhefta græðgiskapítalisma, það er alveg augljóst mál. Þar með á ekki að fara að stöðva allan einkarekstur í heiminum eða girða fyrir alþjóðleg viðskipti eða (Forseti hringir.) annað í þeim dúr. Það er enginn að tala um neitt slíkt heldur að setja þessu skynsamleg mörk og reglur þannig að þetta geti allt farið vel saman.