135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:10]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar kemur að ýmsum málum er eins og hægt sé að reiða sig á að Framsóknarflokkurinn hafi ranga afstöðu og heldur sérkennilega. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir veit auðvitað að um það var mikill ágreiningur, bæði í alþjóðasamfélaginu og hér innan lands, hvort yfirleitt ætti að ráðast inn í Írak og eins hvort Íslendingar ættu að veita þar sinn atbeina. Því fer víðs fjarri að um það hafi verið sátt innan NATO með hvaða hætti NATO-þjóðir kæmu að málum þar eftir að niðurstaðan var orðin sú að farið hafði verið inn í Írak.

Það eru alls ekki allar NATO-þjóðir sem hafa verið með fulltrúa á staðnum. Ég var einfaldlega þeirrar skoðunar að miðað við forsögu málsins og hvernig það bar að þá ættum við ekki að vera með þennan fulltrúa á staðnum, ekki síst í ljósi þess að þetta var eina verkefnið innan friðargæslunnar á okkar vegum sem ekki gat fallið undir skilgreiningu DAC á þróunaraðstoð. Það var því ekkert sem mælti með því að við værum að sinna þessu tiltekna verkefni.

Ég vil minna á að varðandi Afganistan gegnir allt öðru máli. Þegar farið var í aðgerðir í Afganistan, hvað sem menn geta sagt um það, naut það víðtækari stuðnings en dæmi eru um í alþjóðasamfélaginu. Það er því ólíku saman að jafna, hv. þingmaður.