135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:15]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sagði að það mætti reiða sig á að Framsóknarflokkurinn tæki alltaf ranga afstöðu í málum sem þessum og ég stend við það (Gripið fram í.) því að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur rembst eins og rjúpan við staurinn við að halda þessu máli vakandi og talað fyrir því að fulltrúi okkar verði áfram í Írak. Ég veit ekki um neinn annan sem hefur talað með þeim hætti. (Gripið fram í.)

Forsætisráðherra var spurður að því hvort hann hefði tekið þá ákvörðun að kalla fulltrúann heim frá Írak en hann svaraði því neitandi. Hann sagðist þó virða rétt minn til að gera það því að málið væri á mínu forræði. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir virðist ekki geta á heilli sér tekið yfir því að fulltrúi okkar sé ekki lengur í Írak að taka þar þátt í þjálfun hers, eins og þetta verkefni var skilgreint í Írak. (Gripið fram í.)

Engin teikn eru á lofti um að ákvörðunin grafi undan framboði Íslands til öryggisráðsins eða hafi með nokkrum hætti neikvæð áhrif á það. Eflaust eru þar nokkuð skiptar skoðanir en fullt eins má færa öndverð rök í málinu og segja að ákvörðunin hjálpi framboði okkar til öryggisráðsins fremur en að hún skemmi fyrir.

Hvað varðar það sem ég sagði í DV geri ég ráð fyrir að rétt sé eftir mér haft þar. Auðvitað er spurning um hvernig menn orða hlutina, það getur verið smekksatriði. Ég hef sjálfsagt orðað þetta með þessum hætti í samtali mínu við DV.