135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:24]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi samanburð á staðfestunni í Afganistan og Írak ætla ég að ítreka sem ég sagði áðan, að ég tel að þar sé ólíku saman að jafna. Ég hafna því alfarið að búið sé að gengisfella hugtakið staðfesta þannig að það sé ekki lengur nothæft í umræðu um alþjóðamál fyrst það var notað í tengslum við innrásina í Írak, þ.e. bandalag hinna staðföstu þjóða. Ég tel mikilvægt að sýna staðfestu í Afganistan. Það var ríki sem ekki virkaði og hefur ekki virkað í áratugi með þeim skelfilegu afleiðingum sem það getur haft í för með sér. Það er einmitt ein af þessum hnattvæddu ógnum, ef svo má segja, sem við stöndum andspænis. Það er því ekki alltaf spurning um landamæri og svæði heldur ógnina sem okkur stafar af ríkjum sem ekki virka og sem verða, eins og Afganistan var orðið, uppspretta og gróðrarstía hryðjuverkamanna.

Varðandi fólk sem flýr vopnuð átök þá skoðaði ég sérstaklega í ferð minni til Miðausturlanda með hvaða hætti við gætum komið að þeim málum. Þeir sem ég talaði við hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna töldu að mikilvægt væri að skilgreina hópa flóttamanna sem líklegt væri að ættu auðvelt með að aðlagast á Íslandi, velja þyrfti þá af kostgæfni því að Ísland er lítið samfélag og lítið land. Ég lýsti því að ég væri opin fyrir slíku og það er þeim alveg ljóst sem ég talaði við hjá Flóttamannastofnuninni.