135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:26]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að auðvitað má ekki gengisfella hugtakið staðfestu þó að það hafi verið notað í misvitrum tilgangi einu sinni. Það er líka rétt að ástandið í Afganistan er skelfilegt og hefur verið lengi. Ég tek undir með ráðherranum að þar hefur verið gróðrarstía hryðjuverkastarfsemi, eiturlyfjaframleiðsla og fleira slíkt sem mjög mikilvægt er að uppræta. Það á þó reyndar við um fleiri ríki, sérstaklega hvað eiturlyfjaframleiðsluna snertir.

Það breytir því ekki að ástandið í Afganistan er skelfilegt. Við hljótum að velta því fyrir okkur hvort þátttaka okkar þar hefur einhvern sérstakan tilgang og hvort hún er í samræmi við íslensk lög og markmið sem sett voru með lögum um friðargæslu sl. vor.

Varðandi flóttamannamálið þakka ég ráðherra fyrir svörin og skil þau þannig að ráðherrann sé tilbúin til að beita sér fyrir því að við stöndum okkar plikt í þessu efni. Ég vænti þess að eiga stuðning vísan ef málið ber að á hv. Alþingi á nýjan leik.