135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

stefna ríkisstjórnarinnar í stóriðjumálum.

[15:08]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Mér kemur ekki á óvart þótt misvísandi orð komi frá ríkisstjórninni. Þau eru daglegt brauð og ríkisstjórnin minnir auðvitað á fjölskylduna góðu, Jónas og fjölskyldu sem oft var í útvarpinu einu sinni, hin skemmtilegasta fjölskylda af því að hún var alltaf á öndverðum meiði. Menn eru vanir því. Hitt er annað mál að ál var mikið mál fyrir nokkrum árum. Þar á ekki að reka blinda stefnu en það hefur haft mikil áhrif á íslenskt viðskiptalíf og nú blasir það t.d. við að útflutnings- og viðskiptajöfnuðurinn, útflutningstekjurnar á þessu kjörtímabili, gjaldeyristekjurnar, munu sennilega verða meiri af áli en sjávarútveginum öllum. Þetta hefur því mikið að segja í búi ríkisstjórnarinnar.

Ég vil ekki reka blinda stóriðjustefnu og það viljum við framsóknarmenn ekki en þar liggja tækifærin fyrir okkur og heiminn líka. Þar eigum við auðvitað að fara af varúð og láta þar fara saman varúð og uppbyggingu. Það vill svo til að það er framsóknarmaður í formennsku í Landsvirkjun, Páll Magnússon, sem nær þessari stóru samhljóða ákvörðun í stjórninni og horfir nú til netþjónabúa. Þar eru ný tækifæri sem blasa við til að selja orkuna dýrar. Ég fagna því og við getum auðvitað hægt á hinum megin, ný tækifæri blasa við og þetta er bara staðan. Hins vegar ber svo við að hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson lætur það í veðri vaka að ríkisstjórnin og Landsvirkjun hafi þar með slegið á orkuverin og tekið þátt í því að ákveða að þau verði ekki byggð upp. Auðvitað er þetta tímabundin ákvörðun, ríkisstjórnin kemur hvergi að málinu. Þetta er viðskiptaleg ákvörðun sem stjórn Landsvirkjunar tekur á viðskiptalegum forsendum og hefur trúlega ekki spurt ríkisstjórnina. Ég vil a.m.k. fá það á hreint. Spurði stjórn Landsvirkjunar hæstv. forsætisráðherra áður en ákvörðun var tekin? Svona horfir þetta við, þetta er auðvitað ný staða og nýir möguleikar í samfélagi okkar.