135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

stefna ríkisstjórnarinnar í stóriðjumálum.

[15:14]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Væri hér um grundvallarstefnubreytingu að ræða en ekki sjónhverfingar af hálfu stjórnar Landsvirkjunar væri ástæða til að fagna. En stjórnarflokkarnir tala auðvitað hvor í sína áttina eins og stundum áður og túlka þessa niðurstöðu með gerólíkum hætti. Þannig var hæstv. forsætisráðherra spurður í morgun, með leyfi forseta:

Spyrill: En eruð þið að hverfa frá stóriðjustefnunni?

Geir H. Haarde: Nei.

Spyrill: Ertu sammála Össuri um það?

Geir H. Haarde: Þetta hefur ekkert með það að gera. Sko, þetta er bara viðskiptaákvörðun sem nú er verið að taka af hálfu Landsvirkjunar og það er talað um að hún muni ekki í bráð semja við kaupendur á þessu sviði.

Spyrill: Þannig að stóriðjan er í fullu gildi?

Geir H. Haarde: Ja, það hefur ekkert verið tekin nein ákvörðun um að hætta hér að byggja upp orkufrekan iðnað.

Hann slær algerlega af þá túlkun sem hæstv. iðnaðarráðherra hafði uppi á heimasíðu sinni, fyrirgefið, bloggarinn Össur Skarphéðinsson hafði uppi á heimasíðu sinni. Stundum fær maður það á tilfinninguna að það sé ekki sami maðurinn, bloggarinn Össur Skarphéðinsson og iðnaðarráðherra, dr. Össur Skarphéðinsson.

Spurningin er auðvitað sú hvor les rétt í útspil Landsvirkjunar, hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. iðnaðarráðherra, Sjálfstæðisflokkurinn eða Samfylkingin. Og er ekki veruleikinn sá, eins og í raun kom fram í svari hæstv. forsætisráðherra, að þetta breytir engu um áform um uppbyggingu álvers á Bakka, þetta breytir engu um áform um uppbyggingu álvers í Húsavík og það er sérstaklega tekið fram í samþykkt Landsvirkjunar að það sé opið fyrir stækkun og meiri sölu til Straumsvíkur og það sé opið fyrir stækkun og meiri sölu til Grundartanga. Ætli þetta fernt hefði ekki hvort sem er dugað mönnum eitthvað næstu missirin? Er þá ekki niðurstaðan sú að þessi samþykkt Landsvirkjunar breytir sennilega engu að öðru leyti en því, sem er vissulega jákvætt, að aðrir aðilar eins og netþjónabú sem nota kannski nokkur megavött í fyrsta áfanga eru teknir til viðræðna. Það er að sjálfsögðu ástæða til að fagna því en hitt held ég að menn ættu að fara varlega í að trúa að hér hafi orðið einhver grundvallarbreyting hvað varðar trú manna á álbræðslustefnuna.