135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

stefna ríkisstjórnarinnar í stóriðjumálum.

[15:16]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er ankannalegt að þurfa að standa hér dag eftir dag og spyrja út í stefnu ríkisstjórnarinnar. Hæstv. ráðherrar virðast í hverju málinu á fætur öðru koma með mjög misvísandi skilaboð. Hérna er eitt dæmið enn. Ég skil ekki bloggarann og hæstv. iðnaðarráðherra öðruvísi en svo að hann sé á skjön við aðra eftir því sem hann segir á heimasíðu sinni, með leyfi forseta:

„Það verða einfaldlega engum nýjum álverum seld orka.“

En hæstv. forsætisráðherra kemur hér upp og segir að þessi ákvörðun, viðskiptaleg ákvörðun Landsvirkjunar, hafi ekki áhrif á Bakka. Svo er líka búið að vitna í önnur samtöl sem áttu sér stað í morgun í fjölmiðlum við hæstv. forsætisráðherra um að ekki sé verið að hverfa frá því að við getum selt álverum orku.

Virðulegur forseti. Maður hlýtur að spyrja sig: Hvaða fáránlega uppákoma er þetta hjá hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar? Þeir tala svona út og suður í hverju málinu á fætur öðru. Hæstv. iðnaðarráðherra skellir því líka fram að það sé verið að hverfa frá einhverju sem hann kallar „blinda stóriðjustefnu Framsóknarflokksins“. Hvað er hér átt við, virðulegur forseti? Er verið að tala um Kárahnjúkavirkjun, eða hvað?

Ég ætla bara að minna Samfylkinguna á það að hún studdi Kárahnjúkavirkjun. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Það endaði með því.) Hún studdi að lokum Kárahnjúkavirkjun. Það voru reyndar þrír, ef ég man rétt, sem sátu hjá, (Gripið fram í: Tveir.) Tveir sátu hjá. (Gripið fram í: … á móti.) Það eru allir að reyna að rifja þetta upp. Nú held ég að ég bara lesi þetta upp, a.m.k. það sem ég er búin að finna út. Þrír voru fjarverandi, tveir sögðu nei og 12 sögðu já. (Forseti hringir.) Er það þessi stóriðjustefna sem Samfylkingin er að tala um — sem hún studdi sjálf?