135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

stefna ríkisstjórnarinnar í stóriðjumálum.

[15:19]
Hlusta

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað markmið allra að hafa sem fjölbreyttasta atvinnustarfsemi í landinu, en mér finnst ástæða til að gagnrýna stjórn Landsvirkjunar fyrir það verklag sem hún hefur í þessu máli. Það gengur ekki að koma á skjön við það sem menn hafa verið að vinna að og koma í farveg í samningamálum og könnunum um langt skeið og slá þar striki undir.

Vinnubrögð Landsvirkjunar eru auðvitað, ef svo má segja, blaut tuska framan í sveitarstjórn Ölfuss og framan í Alcan sem hefur verið tryggur viðskiptavinur Landsvirkjunar. Svo er hún líka stofnuð vegna tilkomu Ísals. Þetta er hlutur sem menn verða að hafa í huga. Þetta er vandmeðfarið.

Að mínu mati er ekki hægt að kasta mönnunum fyrir borð. Það verða allir að sitja við sama borð í samningaviðræðunum og ekki skilgreina gult, hvítt eða svart í þeim efnum. Það má kannski segja að einu rökin fyrir svona afstöðu séu þau að stofna til hærra raforkuverðs, að raforkan verði verðmætari. Það þýðir samt ekki að það sé ástæða til að útiloka einn eða neinn í samningaferli í þessum efnum. Það finnst mér eiga að vera lykilatriðið í þessu, að menn sitji við sama borð og að Landsvirkjun taki ekki ákvörðun um að stöðva ferli sem í sumum tilvikum var komið á leiðarenda, hefði mátt vænta niðurstöðu á næstu vikum og skekkir þannig möguleika þar sem menn hafa viljað byggja upp með raforkunni, ná sóknarfærum í atvinnu og styrkari stöðu byggðanna.