135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

stefna ríkisstjórnarinnar í stóriðjumálum.

[15:21]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Í viðtalinu sem hæstv. forsætisráðherra var í í útvarpinu í morgun var hann spurður hvernig þetta samstarf nýju ríkisstjórnarinnar gengi. Hann átti vart til orðin til að lýsa því hve vel þeim liði saman, stjórnarflokkunum, og hversu vel gengi. Það var alveg greinilegt að hæstv. forsætisráðherra var með bros á vör í þessum kafla viðtalsins sem ég verð að viðurkenna að maður sér allt of sjaldan á andliti hæstv. forsætisráðherra.

Á sama tíma afhjúpar hann gríðarlega alvarlegan ágreining þessara tveggja stjórnarflokka varðandi atvinnumál og orkumál. Nú skulum við átta okkur á því að það er ekki hægt að tala um þau einstöku verkefni sem eru inni á borði hjá einhverjum orkufyrirtækjum eins og Landsvirkjun á þeim nótum að þetta séu bara ákvarðanir um þetta verkefni eða hitt verkefnið, þetta er spurning um stefnu í atvinnumálum þjóðarinnar. Ætlum við að feta veg sjálfbærrar þróunar eða ætlum við ekki að gera það? Þetta er spurning um stefnu í orkumálum þjóðarinnar og auðlindamálum. Ætlum við að feta veg sjálfbærrar þróunar í orkumálum eða ætlum við ekki að gera það?

Þessi ríkisstjórn ætlar greinilega ekki að gera það. Þar með er hún að svíkjast undan merkjum í samkomulagi þjóðanna, t.d. samkomulagi Norðurlandaþjóðanna sem hafa hvatt ríkisstjórnir sínar á síðustu árum til að feta veg hinnar sjálfbæru þróunar. Það gerum við ekki með því að fara í hár saman innan ríkisstjórnar eins og þessarar um það hvort það eigi að fara í einhæfan þungaiðnað eða fjölbreyttan orkufrekan iðnað, eins og hæstv. iðnaðarráðherra orðaði það hér.

Ég spyr: Hver er munurinn á blindri stóriðjustefnu Framsóknarflokksins sem hæstv. iðnaðarráðherra kallar svo og stefnu Samfylkingarinnar um fjölbreyttan orkufrekan iðnað sem hæstv. viðskiptaráðherra talar um? Mér finnst fullkomlega afhjúpuð sú staðreynd hérna að Samfylkingin er sami stóriðjuflokkur og hún hefur alltaf verið. Og þar gengur hún auðvitað hönd í hönd með bros á vör með hæstv. (Forseti hringir.) forsætisráðherra.