135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

tæknifrjóvgun.

183. mál
[15:41]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir málefnalega athugasemd. Það er nú svo í þessu máli eins og við þekkjum og kemur ágætlega fram í fyrirspurn hans að hér eru mörg álitaefni og eins og kom fram hjá hv. þingmanni þá álít ég að flestir séu sammála um markmiðin og að því leytinu til sé þetta ekki pólitískt mál. Það eru hins vegar mörg álitaefni uppi nákvæmlega eins og þessi tvö sem hv. þingmaður nefndi.

Eins og kom fram í ræðu minni er málið búið að fara í gegnum mjög langan feril, undirbúning áður en það fór inn í þingið, umsagnir í þinginu og það hefur fengið umræðu í hv. heilbrigðis- og trygginganefnd og þetta er niðurstaðan í drögunum eins og þau liggja fyrir núna. Það er verkefni heilbrigðisnefndar og þingsins að taka málið núna og fara yfir það og ef menn telja að eitthvað megi betur fara þá þarf eðli málsins samkvæmt að fara yfir það. Eins og ég rakti í ræðu minni var tekið tillit til þeirra breytinga sem var gengið frá í heilbrigðis- og trygginganefnd á síðasta þingi. Það þýðir hins vegar ekki að menn geti ekki farið yfir málið aftur og það verða menn að gera, bæði í þinginu og í nefndinni og ef nefndarmenn og þingheimur komast að þeirri niðurstöðu að það þurfi að skerpa á einhverjum málum eða breyta þá verður það gert.