135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

tæknifrjóvgun.

183. mál
[16:00]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55 frá 1996, um tæknifrjóvgun, með síðari breytingum.

Eins og hæstv. heilbrigðisráðherra hefur gert grein fyrir og farið vel yfir erum við að fjalla um umframfósturvísa og kjarnaflutninga úr fósturvísum, þ.e. aðgerð þegar kjarni er fjarlægður úr eggfrumu konu og komið þar fyrir kjarna úr líkamsfrumu.

Hæstv. forseti. Öllum hlýtur að vera ljóst að þetta er málefni og viðfangsefni sem er mjög vandmeðfarið og viðkvæmt fyrir marga. Að sama skapi býður tæknin upp á það í dag að upphaf lífs, þessi samruni frumna úr karli og konu, þ.e. fósturvísar á allra fyrstu stigum lífs hafi þá eiginleika sem við með tækniþekkingu okkar í dag getum nýtt til framþróunar, til rannsókna og til þess bæði að skoða eiginleika verðandi fósturs og hugsanlega sjúkdóma, en ekki síður möguleika til rannsókna og þekkingar í líf- og læknisfræði og hugsanlega til lyfjagjafar, til lyfjaframleiðslu. Þarna eru miklir möguleikar ef allt gengur eftir og vonir standa til, þ.e. innan líf- og læknisfræðinnar, að nota þessar frumur við að byggja áfram upp frekari þekkingu innan læknisfræðinnar og lyfjafræðinnar.

Við þessa tækni, þessa möguleika, vaknar auðvitað sú spurning hjá mörgum og sérstaklega þeim sem eru trúaðir: Hvenær kviknar líf? Við höfum stigið þessi skref ákaflega varlega hér á landi og víðast hvar annars staðar. Hér á landi hafa glasafrjóvganir verið framkvæmdar með góðum árangri og mörgum veitt lífsfylling með því að gera það mögulegt sem sumu fólki hefur verið ómögulegt, þ.e. að eignast börn eftir eðlilega meðgöngu móður. Við höfum fram til þessa verið mjög sátt við þennan afmarkaða þátt, að það sé möguleiki að búa til fósturvísa með eggfrumu og sæðisfrumu, að gera með tækninni mögulegt að búa til upphaf lífs við ákveðin vísindaleg skilyrði og koma síðan þessum fósturvísum eða völdum fósturvísum fyrir í legi konu. Þar höfum við látið staðar numið fram til þessa.

En rannsóknum fleygir fram og kallað er eftir því að geta stundað slíkar rannsóknir hér á landi og það er skiljanlegt. Það er líka skiljanlegt að vísindamenn okkar hafi áhuga á að geta nýtt þá umframfósturvísa sem verða alltaf til við þá tækni sem notuð er í dag og notað þá til samsvarandi rannsókna og gerðar eru erlendis og hugsanlega þróað þess vegna nýjar aðferðir eða bætt við nýrri þekkingu. Í dag er óheimilt að nota umframfósturvísa til rannsókna, sem falla til hér á landi, þeim er eytt eftir ströngum reglum, ekki má geyma þá lengur en í fimm ár og þá er þeim eytt.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að nota megi umframfósturvísa en að óheimilt verði að framleiða fósturvísa eingöngu í þeim tilgangi að nota þá til rannsókna, þ.e. að eingöngu verði heimilt að nota umframfósturvísa sem verða til með glasafrjóvgun og verður hvort eð er eytt. Einnig er lagt til að ekki megi nota þá umframfósturvísa sem geymdir eru og síðan eytt að öllu óbreyttu nema að fá leyfi beggja kynfrumugjafa. Þar eru strax komnar siðfræðilegar hindranir og samþykki og viðurkennt að þessar frumur eru sérstakar, þær eru ekki eins og hverjar aðrar frumur. Þá má eingöngu nota stofnfrumulínur til þess að efla þekkingu í líf- og læknisfræði og til lækninga og eins er með kjarnaflutningana.

Ég tek undir með hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni sem vísaði til athugasemda vísindasiðanefndar í umsögn, dags. 9. mars sl., um þetta frumvarp að sú heimild sem leyfi hverrar rannsóknastofu á að byggjast á, að eingöngu skuli nota þessar frumur innan líf- og læknisfræðinnar til lækninga og til að bæta líf og heilsu, er mjög víð, þ.e. skilgreiningin. Ég tel að þegar fjallað verður um frumvarpið í hæstv. heilbrigðisnefnd verði þetta ákvæði skoðað sérstaklega, hvort ekki þurfi að skilgreina heimildir til rannsóknanna eitthvað frekar eða hafa eftirlitið með sérstökum hætti, alla vega er það rétt, eins og ég les þetta, að skilgreiningin er mjög víð. Í raun og veru er hægt að fella hvaða hugmynd sem er undir þessa víðu skilgreiningu. Ég tel að hv. heilbrigðisnefnd þurfi að skoða þennan þátt vel.

Það efni sem rannsóknastofur fá þarna í hendur er viðkvæmt, sérstaklega út frá þeim siðfræðilegu spurningum sem koma upp. Þá hljóta líka að vakna upp þær hugmyndir hvort þessar frumur geti orðið verslunarvara, hvort sú rannsóknastofa eða vísindamenn sem fá heimild til rannsóknanna geti selt þær eða afhent þær öðrum. Með einhverjum hætti ganga þessar frumur á milli í dag því að ekki fara alls staðar fram rannsóknir á sama stað og sýnin eru geymd, fósturvísar fara á milli rannsóknastofa. Ég held að það hljóti að verða skoðað hjá heilbrigðisnefnd hvort fósturvísar séu verslunarvara á milli rannsóknastofa í dag.

Ég vil beina því til hæstv. heilbrigðisráðherra hvort við endurskoðun á lögum um tæknifrjóvgun verði það ekki skoðað að heimila einhleypum konum að fara í tæknifrjóvgun í framtíðinni. Það hlýtur að vera eitt af þeim mörgu álitamálum sem tengjast þessari nýju tækni að hægt sé að frjóvga egg og koma þeim fyrir inni í legi konu. Í dag er það hindrun að fá þessa aðgerð ef konur eru einhleypar og ég vil beina því til hæstv. ráðherra að hann skoði þetta atriði við endurskoðun laganna.

Hæstv. forseti. Í heildina held ég að við séum komin nokkuð langt með að vinna lagaumgjörð um tæknifrjóvgun og notkun umframfósturvísa og kjarnaflutning. En ég tel að við þurfum að gefa okkur tíma í máli sem þessu og leita eftir öllum sjónarmiðum, ekki síst eins og þeim sem komu frá vísindasiðanefnd og taka slíkar ábendingar inn í lagarammann. Þetta eru viðkvæm mál fyrir marga og við eigum, þrátt fyrir að búa yfir mikilli þekkingu, að fara varlega með allt sem snýr að þessari fyrstu tilurð lífsins, fósturvísunum, og þó að við höfum möguleika á að rannsaka og þróa eigum við að ganga hægt um þær dyr.