135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

tæknifrjóvgun.

183. mál
[16:33]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Þótt ég eigi ekki sæti í heilbrigðisnefnd ákvað ég engu að síður að blanda mér í umræðuna um þetta stóra mál. Ég tek strax fram að frumvarpið er að flestu leyti mjög jákvætt og horfir mjög til bóta, eins og flestir þingmenn hafa sagt sem tekið hafa til máls í dag. Auðvitað vakna margar spurningar við lestur frumvarpsins. Rétt er að upplýsa þingheim um að sú sem hér stendur undirbýr nú fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um mál sem tengist tæknifrjóvgun, glasafrjóvgun og rekstri Art Medica í Kópavoginum, þess vegna ákvað ég að blanda mér í málið.

Ég held að engum blandist hugur um að við Íslendingar höfum að mörgu leyti náð frábærum árangri við rekstur glasafrjóvgunardeilda og að mörgu leyti betri árangri en ýmsar aðrar þjóðir. Nú er svo komið að talsvert stór hópur erlendra para og hjóna leitar til Íslands, til Art Medica í Kópavogi, vegna meðferðar því að árangurinn sem náðst hefur á Íslandi hefur verið á heimsmælikvarða. Frumvarpið sem er til umfjöllunar lít ég á sem rökrétt framhald á þeim góða árangri og starfi sem þar hefur verið unnið, að það sé þróað enn þá lengra. Þetta er hins vegar bæði vandmeðfarið og viðkvæmt mál og ekki alveg sama hvernig að því er staðið.

Í 3. gr. frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Heimilt er að taka gjald fyrir ráðstöfun umframfósturvísa til leyfishafa skv. 5. mgr. er nemur kostnaði við ráðstöfunina. Flutningur fósturvísa úr landi er óheimill nema með samþykki kynfrumugjafa og vísindasiðanefndar.“

Ég velti fyrir mér við hvað er átt þarna því að eins og staðan er nú er hámarksgeymslutími fósturvísa hjá Art Medica fimm ár. Fyrir þau fimm ár þurfa pör eða hjón að greiða gjald árlega en að þeim tíma loknum fellur gjaldið niður. Þarna sýnist mér vera einhvers konar heimild um að Art Medica, sem nú er eini staðurinn á Íslandi sem geymir fósturvísa, hafi heimild til að taka einhvers konar gjald. Kannski er það gjald fyrir ákveðnum kostnaði, það kann vel að vera, en ég set spurningarmerki við það af því að Art Medica er ekki ríkisrekið apparat heldur einkaklíník. Upphaflega var glasafrjóvgunardeild staðsett á Landspítalanum þegar farið var af stað með slíka deild á Íslandi og hún var ríkisrekin. Það eru afar fáir sérfræðingar á Íslandi sem eru menntaðir til að framkvæma og annast glasafrjóvganir, ég hygg að þau séu nú þrjú sem starfa hjá Art Medica. Mér er kunnugt um að þar er rekstur alltaf í járnum og halda þarf vel á spöðunum til að reka stofuna. Sú spurning vaknar auðvitað hvort menn sjái þarna einhverja tekjulind fyrir Art Medica. Svo þarf ekki að vera en ég velti því upp því að þetta er jú einkarekið fyrirtæki.

Það leiðir hugann aftur að gjaldinu sem fólk verður að greiða ef það nýtir sér þjónustu Art Medica. Ég hygg að kostnaður við glasafrjóvgun pars sem ekki á barn saman og fer í fyrsta skipti í slíka meðferð sé nú einhvers staðar í kringum 150 þús. kr. Kostnaðurinn eykst síðan eftir því sem parið fer í fleiri aðgerðir og getur numið allt að 300–350 þús. kr. fyrir þriðju til fjórðu meðferð þannig að í sumum tilfellum getur verið um ræða mikinn kostnað fyrir fólk. Þá er ekki tekið tillit til ástæðna ófrjóseminnar.

Áðan var nefnt að fólk getur orðið ófrjótt af ýmiss konar sjúkdómum, vegna krabbameins eða einhvers annars. Í gjaldskrá Art Medica borga allir það sama án tillits til þess af hverju ófrjósemin er sprottin. Eini munurinn í gjaldskránni er hvort fólk er gift og á ekki barn saman eða að það er gift og á barn fyrir en þá hækkar gjaldskráin. Ef ég færi í glasafrjóvgun á morgun með manni sem ætti tvö börn fyrir þyrftum við að greiða hærra gjald en ef ég færi í glasafrjóvgun og hvorugt okkar ætti barn fyrir. Það er því ýmislegt sem kanna þarf í þessum efnum en eins og áður sagði er ég er með málin í skoðun innan þingsins.

Mér heyrðist á hv. þm. Bjarna Harðarsyni áðan að hann væri heldur andsnúinn því að einhleypar konur ættu rétt á tæknifrjóvgun eða meðferð af því tagi. Ég er ekki sammála hv. þingmanni um það því að ég tel að einhleypar konur eigi að hafa sama rétt til tæknifrjóvgunar og glasafrjóvgunar og þær eiga til ættleiðingar nú, þannig að því sé haldið til haga í umræðunni.

Að lokum vil ég segja að mér finnst frumvarpið í heild sinni vera mjög jákvætt og held að það eigi eftir að færa okkur framar í læknisvísindum og rannsóknum á stofnfrumum.

Herra forseti. Ástæða er til að ræða eitt enn en það tengist einmitt 3. gr. frumvarpsins um heimildarákvæði gjaldtöku. Erfitt er að átta sig á hver eftirspurnin eftir fósturvísum yrði vegna þess að það er enginn sem annast rannsóknir á stofnfrumum í dag. Menn hafa velt því upp að lengja þann tíma sem fósturvísar eru geymdir en nú er hann, eins og áður sagði, fimm ár. Ég veit ekki hversu langan tíma hefur verið rætt um í þeim efnum, sjö til níu ár eða jafnvel lengur. Það gefur þá auga leið að fósturvísum mun fjölga ef lengja á geymslutímann.

Einhvers staðar bíða menn eftir samþykkt þessa frumvarps, menn sem geta þá farið að setja á laggirnar rannsóknastofnanir — og nú mega hv. þingmenn ekki misskilja mig þannig að ég telji að Pétur eða Páll fari að stofna einhverjar rannsóknastofnanir — til þess að fá fósturvísa til rannsókna. Hugsanlega sjáum við fram á að þeim fósturvísum sem rannsóknastofum stæði til boða mundi fjölga. Þetta varðar heimildarákvæðið um að Art Medica sé heimilt að rukka inn einhvern kostnað. Ég nefni þetta vegna þess að ég talaði um fjárhagsstöðu Art Medica áðan og þeir hafa um nokkurn tíma sagt að þeim sé afar þröngur stakkur skorinn varðandi fjármagn og vera kann að þarna sé leið til fjáröflunar. Ég veit það ekki en sú spurning leitar á hugann. Því lengur sem fósturvísir er geymdur því minni möguleikar eru á að hann verði að barni í legi konu. Samkvæmt mínum upplýsingum minnka líkurnar þegar fósturvísir hefur verið geymdur í fimm ár eða lengur. Mestu möguleikarnir eru þegar fósturvísir er ungur, þ.e. þegar ekki er búið að geyma hann lengi.

Það eru því ýmsar áleitnar spurningar sem vakna við lestur frumvarpsins. Við hæstv. heilbrigðisráðherra eigum örugglega eftir að ræða það síðar á þingvetrinum. Ég vil ljúka máli mínu með því að segja að í heildina er ég mjög jákvæð gagnvart því sem rætt var þótt auðvitað vakni ýmsar spurningar þar sem um afar stóra siðferðislega spurningu er að ræða.