135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

tæknifrjóvgun.

183. mál
[16:45]
Hlusta

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fjalla um meginefni þess frumvarps sem nú liggur fyrir og þær breytingar sem þar eru lagðar til þótt ég geti í grunninn sagt að ég sé jákvæð gagnvart því sem hér er lagt fram. Ég ítreka, eins og margir hafa komið inn á í dag, að þessi mál eru mjög vandmeðfarin og viðkvæm, þau þarf að íhuga mjög vel og vanda til verka.

Ég er mjög ánægð að sjá hvernig hinar siðferðislegu spurningar, hin siðferðislegu rök og þau viðfangsefni sem við blasa í þessum málum á hinn siðferðislega hátt, eru að fá vaxandi og meira gildi. Hér í eina tíð brann við að tæknin hlypi á undan okkur með öll völd. Á ýmsan hátt gerir hún það enn en það er mjög mikilvægt að við hlaupum um leið með siðferðisleg rök og heimspekilegar vangaveltur. En ég ítreka að í grunninn er ég jákvæð gagnvart þeim breytingum sem hér eru lagðar til.

Mig langaði hins vegar sérstaklega til að koma inn á mál sem nokkrir hafa nú þegar nefnt en það er réttur einhleypra kvenna til tæknifrjóvgunar. Ég tel það mikilvægt mál og nokkuð áríðandi, klukkan tifar jú hjá konum. Tíminn vinnur ekki með konum í þessum málum og Alþingi Íslendinga á ekki að slóra í þessu. Þegar við tökum fyrir lög um tæknifrjóvgun eigum við að gera þá sjálfsögðu réttarbót að einhleypar konur geti, jafnt sem aðrar konur, gengist undir tæknifrjóvgun.

Ég hef verið að vinna að því undanfarið að leggja til breytingu á frumvarpi til laga um þetta efni. Nú þegar ég er komin inn á þing er ég mjög ánægð með yfirlýsingar hæstv. heilbrigðisráðherra, sem hann gaf fyrir skömmu, um það sem ég hef verið að safna mér efni um, þ.e. um þennan rétt einhleypra kvenna sem hæstv. ráðherra tók vel í.

Mér leikur mikil forvitni á að vita hvenær ráðgert er að leiðrétta þessa mismunun því að þetta er réttlætismál. Við lifum á tímum þar sem fjölskyldumunstur er mjög fjölbreytt. Við lifum ekki í gamla daga. Fjölskyldumunstur er stöðugt að breytast. Fólk skilur og tekur saman, einstæðar konur eiga börn og ala þau upp einar o.s.frv. Sú sem er einhleyp í dag gæti verið gift eftir tvær vikur, tvo mánuði eða ár. Við búum við veruleika sem lögin í landinu um þessi mál, um þrána og gleðina yfir því að eignast barn, eiga að endurspegla. Á margan hátt fögnum við frjálsu og fjölbreyttu fjölskyldumunstri.

Það verður ekki ofsagt að þær einstæðu konur sem ákveða að fara í tæknifrjóvgun — einhleypar, íslenskar konur fara til útlanda í tæknifrjóvgun, fara til Danmerkur eða jafnvel Bandaríkjanna og víðar — ættu með réttu að geta gert það hér. Þær konur sem fara í þessa meðferð gera það að vel ígrunduðu máli. Þær skipuleggja framtíð sína og verðandi barns afar vel og eru jafnvel öðrum fremur tilbúnar til að takast á við móðurhlutverkið.

Það er mikið misræmi í lögunum eins og þau eru núna, að einhleypar konur eða einstaklingar geti ættleitt börn á eigin forsendum en geti ekki farið í tæknifrjóvgun. Það misræmi þarf einfaldlega að laga og því fyrr því betra. Engar rannsóknir benda til þess að við séum með því að ganga á rétt barna eða ungmenna sem alast þá upp í ástríku umhverfi og koma til móður sem hefur þráð þau meira en nokkuð annað.

Ég vil einfaldlega ítreka spurninguna til hæstv. ráðherra: Hvenær er þessara breytinga að vænta? Eins og ég sagði áðan þá tifar klukkan og ég vil helst að við gerum þetta strax í dag.