135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

tæknifrjóvgun.

183. mál
[16:53]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er vissulega spennandi umræða og margt í henni er mikilvægt að ræða. Sannfæring mín er sú að það sé hverju barni mikilvægt að eiga skilgreindan föður og skilgreinda móður og geta vitað hver hinn erfðafræðilegi grundvöllur þess er. Það má alls ekki túlka orð mín á þann veg að ég telji barni algjörlega nauðsynlegt að alast upp í hinni gömlu klassísku kjarnafjölskyldu föður og móður. Barn getur, eins og hv. þm. Guðfríður Lilja vék að, átt fullkomlega hamingjusama æsku og ástríka með einu foreldri.

En í þessari umræðu eru skilgreiningaratriði sem þurfa að vera mjög á hreinu og því mikilvægt að við löggjöf sé ekki hrapað að niðurstöðum. Það þýðir ekki í mínum huga að útiloka beri þann möguleika að einstæðar mæður hafi möguleika til tæknifrjóvgunar. Langt í frá.