135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

tæknifrjóvgun.

183. mál
[16:54]
Hlusta

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði að benda hv. þm. Bjarna Harðarsyni á að eins og lögin eru í dag geta lesbísk pör t.d. farið í tæknifrjóvgun. Kona sem er í lesbísku sambandi getur farið í tæknifrjóvgun og þar með eignast barn sem veit ekki hver hinn líffræðilegi faðir er. (BjH: Það er slæmt.)

Hið sama má segja um gagnkynhneigð pör. Þar er farið í lokaðan sæðisbanka (BjH: Það er líka slæmt.) og barnið elst upp með föður og móður en veit aldrei hver þess eiginlegi líffræðilegi faðir er. Það er mjög athyglisvert að hugsa um tölulegar staðreyndir í þessum efnum. Við erum að tala um rétt barna til þess að vita um líffræðilegan föður. Allar rannsóknir benda til þess í Svíþjóð að um 10% barna séu rangfeðruð. Líða þau börn fyrir það og hvaða rétt eiga þau?

Það eru svo margar spurningar sem vakna með þeirri hugmynd að börn verði að alast upp með sínum líffræðilega föður og sinni líffræðilegu móður. Við búum í samfélagi sem rúmar sem betur fer miklu fjölbreyttara litróf en það og svo sannarlega börn, eins og margar rannsóknir staðfesta, sem lifa hamingjusömu og ástríku lífi. Málið snýst um það hversu tilbúnir foreldrarnir eru til að sinna hlutverki sínu, annaðhvort einir eða með öðrum — móðir getur verið einstæð um einhvern tíma, fundið svo ástina og fundið barni sínu annað foreldri. Þetta eigum við að líta á. Það er þannig sem allir einstaklingar eiga að hafa sama rétt í þessu máli.