135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

sértryggð skuldabréf.

196. mál
[17:35]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek eindregið undir túlkun hv. þingmanns á frumvarpi þessu. Ég held að það mundi skipta heilmiklu máli upp á lánamarkaðinn. Eins og hv. þingmaður sagði á það að geta lækkað vaxtamuninn og mikilvægt er að útgefandinn, eins og ég gat um áðan, geti jafnað og dregið úr sinni vaxtaáhættu til lengri tíma. Útgáfa á sértryggðum skuldabréfum verður svo sannarlega til þess með þeim afleiðingum að slík langtímalán og vextir af þeim ættu að geta lækkað umtalsvert. Þess vegna er þetta mikið framfaramál og vonandi að það nái í gegn á sama tíma og umræðan í samfélaginu er hávær um að vextir á langtímalán og húsnæðislán séu að hækka.

Ég er sannfærður um að gangi þetta frumvarp í gegn og verði að lögum þá bæti það verulega stöðu banka og lánastofnana til að verða sér úti um fjármagn til að fjármagna starfsemi sína og endurlána viðskiptavinum sínum á lægri vöxtum en ella.

Þannig getur þetta frumvarp unnið gegn þeirri þróun sem verið hefur uppi á íslenskum húsnæðislánamarkaði á allra síðustu vikum, að vextir hafa hækkað verulega frá því að bankarnir komu inn á íbúðalánamarkaðinn árið 2004, þegar þeir buðu ódýrt lánsfé á rúmlega 4% vöxtum. Nú er lánsfé bankanna almennt komið yfir 6% vexti þannig að hækkunin er veruleg. Þetta frumvarp getur bætt stöðu lánastofnana til að bjóða hagstæðari lán til lengri tíma.