135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

tekjuskattur.

42. mál
[17:45]
Hlusta

Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það getur verið einfalt að hafa prinsipp í lífinu og leggja út af þeim á sama hátt hvert sem málið er. Hér er ekki á ferðinni að leggja fram háa styrki í þróunarsjóði heldur hugmynd til að skapa ákveðið jafnræði milli einkafyrirtækja og opinberra fyrirtækja. Framlög sem í dag renna í starfsmannasjóði eða er á annan hátt skotið undan — ekki kannski beint skotið undan en reglurnar eru þannig að þau koma ekki beint fram og hlunnindi starfsmanna eru þannig, ef ég má leyfa mér að orða það svo, falin í starfsmannasjóðum. Það er miklu eðlilegra að þetta sé uppi á borðinu. Ég hefði talið að hv. þingmaður vildi að allt væri uppi á borðinu ef undan er skilið það að birta opinber gjöld einstaklinga. Ég hefði talið að hv. þingmaður vildi hafa jafnræði með opinberum fyrirtækjum og einkafyrirtækjum auk þess sem hér er um að ræða sáralitla fjármuni miðað við þá miklu fjárfestingu sem hugsanlega gæti falist í því að efla og bæta lýðheilsu landsmanna. Ég hefði talið að hv. þingmaður ætti að fara mjög létt með að styðja jafngott mál og þetta.

Mér finnst heldur miður ef hv. þingmaður leggur þetta mál að jöfnu við stór og mikil framlög í þróunarsjóði eða annað þess háttar því að eftir því sem ég kemst næst erum við að tala um mál af stærðargráðunni 3–5 millj. kr.