135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

tekjuskattur.

42. mál
[17:49]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Því miður er ekki einu sinni jafnræði milli opinberra starfsmanna innbyrðis, hvað þá milli þeirra og annarra á hinum almenna markaði. Það höfum við margoft rætt, sérstaklega varðandi lífeyrisréttindin. Opinberir starfsmenn í B-deild eru með allt önnur lífskjör og allt önnur kjör en þeir sem eru í A-deild. Þeir opinberu starfsmenn sem eru í hvorugri deildinni, og eru í Lífeyrissjóði Eflingar, eru enn verr settir. Það er ekki einu sinni jafnræði á milli opinberra starfsmanna innbyrðis, hvað þá á milli þeirra og starfsmanna á almennum markaði.

Ég hugsa að þetta verði ekki til þess að laga það misræmi sem er til staðar hjá opinberum starfsmönnum. Ef það er meginmálið væri nær að hv. þingmaður færi að laga misræmið í lífeyrisréttindunum. (Gripið fram í: Er eitt misrétti réttlæting á öðru?)