135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

réttindi samkynhneigðra.

18. mál
[17:51]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á ýmsum lagaákvæðum sem varða réttindi samkynhneigðra, sem finna má á þskj. 18. Málið er flutt af þingmönnum úr öllum stjórnarandstöðuflokkunum. Auk mín eru þar úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hv. þingmenn Atli Gíslason, Katrín Jakobsdóttir og Ögmundur Jónasson, úr Framsóknarflokknum eru hv. þingmenn Bjarni Harðarson og Siv Friðleifsdóttir og frá Frjálslynda flokknum hv. þm. Grétar Mar Jónsson. Einhverjir kynnu að segja að hér hrópaði á mann fjarvera þingmanna úr stjórnarflokkunum, Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu, og er ég þá að meina í málinu en ég sé að þingmenn úr stjórnarflokkunum eru hér staddir og ég treysti því að þeir komi til með að taka þátt í umræðum.

Virðulegi forseti. Frumvarpið gerir ráð fyrir að hjúskaparlögunum, nr. 31/1993, verði breytt þannig að þau verði látin gilda um öll pör í landinu, samkynhneigð pör sem gagnkynhneigð, og að jafnframt verði felld úr gildi lögin um staðfesta samvist, nr. 87/1996, en þau lög hafa eins og kunnugt er þjónað hlutverki sínu afar vel. Með þeim var brotið í blað og réttindi samkynhneigðra hafa æ síðan verið til umfjöllunar hér á löggjafarsamkundunni sem og í samfélaginu. Er nú svo komið að mínu mati að löggjafinn ætti að vera tilbúinn að breyta lögunum í þá veru að hætta aðgreiningu milli samkynhneigðra annars vegar og gagnkynhneigðra hins vegar og tryggja að í landinu séu ein lög sem varði hjúskap og þá skipti ekki máli hver kynhneigð þeirra para er sem í hjúskap vilja ganga, enda tel ég að það séu allt aðrir þættir sem skipti meginmáli varðandi hjúskapinn, kynhneigðin komi málinu ekki við.

Eins og ég sagði áðan voru lögin um staðfesta samvist mikil réttarbót á sínum tíma fyrir samkynhneigða og fyrir fjölskyldur þeirra, ættingja og vini sem höfðu þá barist mikilli baráttu fyrir viðurkenningu samkynhneigðra í samfélaginu og ekki hvað síst samvistum þeirra og þar með hjúskap. Lögin gengu í gildi á alþjóðlegum frelsisdegi lesbía og homma, 27. júní 1996, og voru gerð að fyrirmynd nágrannaþjóða okkar, Svía, Dana og Norðmanna. Auðvitað hefði verið óskandi að Íslendingar hefðu getað stigið fram fyrir skjöldu og verið fyrstir, það var draumur okkar sumra sem tókum þátt í baráttunni. Það varð ekki, við fetuðum í fótspor nágrannaþjóða okkar á Norðurlöndunum.

Mig langar að geta þess hér að Íslendingar hafa staðið framarlega hvað löggjöfina varðar því að við urðum fyrst þjóða til að samþykkja frumættleiðingar fyrir samkynhneigða. Ég tel því að íslenska löggjafarsamkoman hafi á árum áður sýnt það og sannað að hún getur tekið frumkvæði í þessum málum og staðið fremst meðal þjóða. Í þessu máli getum við það líka. Ég tel að þetta mál sé hvatning til þess að við göngum fram fyrir skjöldu og stöndum í fremstu röð.

Í maí árið 2000 samþykkti Alþingi breytingar á lögunum um staðfesta samvist, þar sem stjúpættleiðingar barnafólks í staðfestri samvist voru heimilaðar. Ísland var annað landið í heiminum, á eftir Danmörku, þar sem sá réttur var lögfestur. Um það leyti, ég held að það hafi verið í sama sinn, voru skilyrði varðandi ríkisborgararétt rýmkuð í tengslum við staðfesta samvist og tiltekin lagatæknileg atriði lagfærð.

Á grundvelli skýrslu nefndar forsætisráðherra um réttarstöðu samkynhneigðra, sem var lögð fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi árið 2004, voru lagðar til fjölþættar breytingar sem höfðu að markmiði að afnema þá mismunun sem enn fannst í lögum varðandi réttarstöðu samkynhneigðra. Þar var um að ræða skilyrði fyrir stofnun staðfestrar samvistar, skráningu staðfestrar samvistar í þjóðskrá, ýmis réttindi varðandi almannatryggingar, lífeyrisréttindi, fæðingarorlof, skattalega meðferð tekna og eigna, skipti dánarbúa og annað af þeim toga, og einnig fengu samkynhneigð pör heimild til að ættleiða börn á sama hátt og gagnkynhneigð pör og lesbískar konur í óvígðri sambúð eða staðfestri samvist fengu að gangast undir tæknifrjóvgun. Á grundvelli þessarar skýrslu, og frumvarps sem lagt var fram á grundvelli hennar, voru samþykkt á Alþingi lög þann 2. júní 2006, og eftir að þau lög voru samþykkt má segja að það eina sem út af hafi staðið sé atriðið varðandi hjónabandið. Óvígð sambúð samkynhneigðra er lögð að jöfnu við óvígða sambúð gagnkynhneigðra og það var yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar á sínum tíma og kom fram í greinargerð með því frumvarpi.

Nú vantar upp á það að samkynhneigð pör hafi sama rétt og gagnkynhneigð, lögin um staðfesta samvist gera ekki ráð fyrir að pör geti kallað sína staðfestu samvist hjónaband og geti þar af leiðandi ekki talist hjón að lögum heldur eitthvað annað. Þar með erum við með aðgreiningu sem ég tel fullkomlega óforsvaranlega á 21. öldinni og tímabært að við breytum til betri vegar. Þetta er eina atriðið sem út af stendur hvað varðar full réttindi til handa samkynhneigðum. Samkvæmt lögunum eins og þau eru núna geta einungis sýslumenn eða dómarar leitað sátta á milli einstaklinga í staðfestri samvist en ekki prestar eða forstöðumenn trúfélaga eins og þegar um gagnkynhneigð pör er að ræða og einnig geta samkynhneigð pör ekki öðlast kirkjulega vígslu og það eru hin formlegu atriði sem gera það að verkum að tvenn lög gilda í landinu um hjúskap einstaklinga.

Það er mat flutningsmanna frumvarpsins, virðulegi forseti, að það sé grundvallaratriði að löggjöfin mismuni ekki fólki og til marks um það nefnum við 65. gr. stjórnarskrárinnar í greinargerð. Henni er ætlað að koma í veg fyrir mismunun af því tagi sem viðgengst. Samkvæmt 65. gr. skulu allir vera jafnir fyrir lögunum, en það má segja að á meðan tvenn lög gilda um hjúskap eftir kynhneigð fólks sé farið fram hjá þeirri grundvallarreglu.

Þann 6. desember 2005 barst okkur alþingismönnum áskorun frá Samtökum foreldra og aðstandenda samkynhneigðra um að breyta hjúskaparlögunum á þann veg að þau þjónuðu bæði gagnkynhneigðu og samkynhneigðu fólki. Sú áskorun skipti sköpum um tilurð þessa frumvarps og greinargerðin sem fylgdi áskoruninni er í raun og veru rökstuðningur þess frumvarps sem við nú ræðum.

Það má til sanns vegar færa að málefni samkynhneigðra hafi verið á dagskrá þjóðkirkjunnar nokkuð lengi, að minnsta kosti síðan 1996 þegar lögin um staðfesta samvist fóru í gegn. Ég hef hér bréf frá kirkjuþingi, um undirbúning kirkjuþings 2006, þar sem fram kemur hversu mikið kirkjan hefur gert í þessum málaflokki. Þar kemur fram hversu víða hefur verið fjallað um málefni samkynhneigðra innan kirkjunnar og hversu oft og við þekkjum öll nýafstaðið kirkjuþing og umræður um málefni samkynhneigðra þar.

Kenningarnefnd kirkjunnar sagði í sínu áliti, sem skilað var í apríl 2006, að — nú hef ég týnt því hvar þau ummæli er að finna sem ég ætlaði að vitna til, ég læt þau þá bíða enn um sinn, virðulegi forseti. Kenningarnefnd kirkjunnar hefur, eins og ég sagði, fjallað um málin oftar en einu sinni og bæði árið 2006 og aftur 2007 hefur hún komið við sögu í umfjöllun kirkjunnar um málið. Þjóðkirkjan hefur með umsögnum sínum komið að vinnu löggjafans við þær lagabreytingar sem gerðar hafa verið hingað til en engu að síður hefur það verið alveg ljóst að innan kirkjunnar hafa verið mjög skiptar skoðanir um einstaka þætti þessa máls þó svo að kirkjan hafi á sínum tíma stutt setningu laganna um staðfesta samvist.

Ég nefndi áðan nefnd forsætisráðherra frá árinu 2004. Hún hvatti þjóðkirkjuna til þess að breyta afstöðu sinni til hjónabanda samkynhneigðra þannig að samkynhneigðir gætu fengið kirkjulega vígslu eins og gagnkynhneigð pör en um þann þátt málsins hafði verið ágreiningur innan kirkjunnar eins og ég sagði áðan og svo ég fái að vitna beint í skýrslu nefndar forsætisráðherra segir hún í tilmælum sínum til þjóðkirkjunnar eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Nefndin hvetur þjóðkirkjuna til þess að breyta afstöðu sinni gagnvart hjónaböndum samkynhneigðra þannig að samkynhneigðir geti fengið kirkjulega vígslu eins og gagnkynhneigð pör.“

Samtök foreldra og aðstandenda samkynhneigðra og Prestafélag Íslands hafa markvisst unnið að því að leysa ágreiningsmálin sem upp hafa komið varðandi samkynhneigða, trú og kirkju. Í því augnamiði stofnuðu félögin til þriggja málþinga á árunum 2004 og 2005 sem fjölluðu hvert á sinn hátt um afmarkaða þætti. Hið fyrsta bar yfirskriftina Hvar stöndum við?, annað Fjölskyldur samkynhneigðra og hjúskaparform, og hið þriðja Getur íslenska þjóðkirkjan haft frumkvæði í málefnum samkynhneigðra? Afrakstur þessara málþinga hefur verið gefinn út í 1. tbl. Kirkjuritsins, 71. árg. Þar getur að líta erindi sem flutt voru á þessum málþingum og þau gefa afar glögga mynd af vel ígrundaðri afstöðu og rökstuðningi fræðimanna, presta, lögfræðinga og leikmanna. Við skoðun helstu þátta ágreiningsins liggur nokkuð ljóst fyrir að tímabært sé að ein hjúskaparlög gildi um alla borgara landsins, a.m.k. er það skoðun þeirra þingmanna sem flytja þetta frumvarp.

Af því að við höfum borið okkur saman við nágrannalöndin í þessum efnum getum við um það í greinargerð með frumvarpinu að Svíar hafa ásamt Íslendingum gengið einna lengst af Norðurlandaþjóðunum í að jafna rétt samkynhneigðs fólks og gagnkynhneigðs. Svíar hafa nú í undirbúningi lagabreytingu sem leggja mun hjúskap samkynhneigðs fólks að jöfnu við hjúskap gagnkynhneigðra. Þar í landi er undirbúningur lagabreytinga afar gagnsær og almenningi gert kleift að fylgjast með hugmyndunum sem ríkisstjórnin vinnur eftir. Í greinargerðinni gerum við grein fyrir nokkrum sjónarmiðum sem hægt er að kynna sér á heimasíðu sænska þingsins. Þar kemur m.a. fram að Svíar telji að gera eigi grein fyrir öllum rökum gegn því að leyfa einstaklingum af sama kyni að ganga í hjónaband samkvæmt hjúskaparlögum, taka þurfi afstöðu til þess hvort rýmka eigi heimildina til þess að ganga í hjónaband þannig að hún nái einnig til para af sama kyni, taka þurfi afstöðu til þess hvaða formlegu skilyrði eigi að gilda um hjónavígsluna, þ.e. hvort hún eigi að felast í veraldlegri og/eða trúarlegri athöfn og er þar til umræðu möguleikinn á því að taka hjónavígsluna sem slíka frá trúfélögunum eða gera þeim frjálst að annast slíka vígslu en að gera þetta almennt að borgaralegri athöfn en ekki trúarlegri. Þarna er einnig rætt um hvort leiðtogar trúarsafnaða eigi yfir höfuð að hafa heimild til að gefa fólk saman eða ekki og hvort gera eigi tillögur um breytingar á lögum um staðfesta samvist. Um þetta má nánar lesa í greinargerð með frumvarpinu, virðulegi forseti.

Röksemdir sænsku skýrsluhöfundanna sem tíundaðar eru eru í raun og veru sambærilegar þeim rökum sem koma fram í þeim erindum sem ég gat um áðan og birtast í Kirkjuritinu þar sem Samtök foreldra og aðstandenda samkynhneigðra og Prestafélag Íslands fjölluðu um málin, og nefni ég sérstaklega í greinargerðinni erindi Láru V. Júlíusdóttur, Sólveigar Önnu Bóasdóttur og Sigfinns Þorleifssonar.

Að lokum vil ég geta þess, virðulegi forseti, að við samningu frumvarps þessa hafa verið vangaveltur um það hvort, af orðsifjafræðilegum ástæðum, væri rétt að finna annað orð yfir hið formlega sambúðarform samkynhneigðra. Í því sambandi hafa verið nefnd orð eins og „festarband“, „tryggðaband“ eða „tvíband“, jafnvel að halda mætti hugtakinu „staðfest samvist“ áfram á lofti. En þegar þessar vangaveltur fara að taka á sig mynd og maður fer að kafa dýpra ofan í þær stefna þær okkur í ógöngur, því að einmitt þær gera það að verkum að menn fara aftur inn á braut aðgreiningar en ekki þeirrar grundvallarstefnu að gilda eigi ein lög í landinu um alla. Flutningsmenn létu því af öllum vangaveltum um að hjónaband samkynhneigðra ætti að heita eitthvað annað en hjónaband gagnkynhneigðra. Hér er því flutt tillaga um að hjúskaparlögunum verði í raun og veru aðeins breytt á þann hátt að stað orðanna „karls og konu“ í 1. gr. þeirra komi: tveggja einstaklinga. Hjónabandið verði þá ekki lengur skilgreint í hjúskaparlögunum sem einhvers konar sáttmáli karls og konu heldur tveggja einstaklinga, enda komi kynhneigðin ekki málinu við.

Virðulegi forseti. Ég hef nú lokið við að fara yfir greinargerð frumvarpsins. Mig langar til að segja að lokum að nýafstaðið kirkjuþing ályktaði um hjónabandið og staðfesta samvist. Um málið voru ákveðin átök en ég ætla ekki að rekja þau neitt sérstaklega en langar til að lesa hér þá þingsályktun sem kirkjuþing samþykkti varðandi þjóðkirkjuna og staðfesta samvist. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Kirkjuþing lýsir stuðningi við meginatriði ályktunar kenningarnefndar um þjóðkirkjuna og staðfesta samvist og stendur við hefðbundinn skilning á hjónabandinu sem sáttmála karls og konu.

Ef lögum um staðfesta samvist verður breytt þannig að trúfélög fái heimild til að staðfesta samvist þá styður kirkjuþing það að prestum þjóðkirkjunnar, sem eru vígslumenn að lögum, verði það heimilt. Kirkjuþing leggur áherslu á að frelsi presta í þessum efnum verði virt.“

Nú má búast við því, virðulegi forseti, að á grundvelli þessarar ályktunar þjóðkirkjunnar eða kirkjuþings komi inn í þingsali frumvarp frá hæstv. kirkjumálaráðherra Birni Bjarnasyni, sem þó vill í raun og veru ekki vera kirkjumálaráðherra lengur ef marka má orð hans því að hann telur sig vera búinn að auka sjálfstæði kirkjunnar svo mikið að ekki sé lengur þörf fyrir kirkjumálaráðherra. Engu að síður tel ég líklegt að hæstv. kirkjumálaráðherra komi með frumvarp sem byggi á þessari samþykktu tillögu kirkjuþings. Þegar og ef það verður getum við tekið umræðuna hér í þingsal um það mál á sjálfstæðum grunni, það yrði þá stjórnarfrumvarp sem fylgt yrði úr hlaði af ráðherra og þau sjónarmið sem ég hef hér talað fyrir kæmu þá auðvitað upp á borðið aftur og yrðu þá borin saman við tillögu hæstv. ráðherra, sem ég ímynda mér að verði.

Mig langar til að segja í því sambandi, hæstv. forseti, að ég tel að löggjafinn eigi ekki að takmarka sig við tillöguna frá kirkjuþingi vegna þess að löggjafinn setur landinu lög og landsmönnum og þar með kirkjunni. Kirkjuþing setur ekki lög í landinu. Kirkjuþing getur hins vegar ákveðið með hvaða hætti prestar og vígðir einstaklingar trúfélagsins sem slíks, þjóðkirkjunnar, fara með sitt starf, hvernig þeir sinna sakramentum sínum eða athöfnum og vígslum, en ég tel afar brýnt að við sem löggjafi í landinu búum ekki til neinar takmarkanir í þessum efnum. Við viljum að 65. gr. stjórnarskrárinnar sé í fullu gildi og aðgreiningin í þessum efnum heyri sögunni til. Það er miklu meira en tímabært.