135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

réttindi samkynhneigðra.

18. mál
[18:35]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að samkynhneigðir geti fengið kirkjulega vígslu ef þeir svo kjósa. Lög beinlínis banna það. Lög heimila ekki trúfélögum að gefa fólk saman í hjónaband ef það er samkynhneigt. Lögin um staðfesta samvista heimila einungis borgaralega vígslu. Þar tel ég um mannréttindi að ræða en hv. þingmaður virðist vera ósammála mér og þá verður bara svo að vera. Ég tel að þetta tvennt sem ég nefndi í ræðu minni og andsvari heyri til mannréttinda.

Varðandi þá kynhneigð sem mér er enn fyrirmunað að skilja hver er, sem bönnuð er eða fólki sé mismunað vegna samkvæmt almennum hegningarlögum. Ég átta mig ekki enn á hvað hv. þingmaður er að tala um. Ég átta mig ekki á hvað það er sem hann getur skýrt fyrir mér á bak við hurð eða úti undir vegg en ekki skýrt hér í þingsal úr ræðustóli Alþingis.

Varðandi það að við séum að neyða sjónarmiðum upp á þjóðkirkjuna þá er það í sjálfu sér ekki rétt. Við erum einungis að leggja til að löggjöfin verði eins víð og mögulegt er. Það yrði þjóðkirkjunnar að ákveða á hvern hátt hún vinni eftir löggjöfinni og önnur trúfélög sömuleiðis. Ef þjóðkirkjan teldi sig ekki geta farið eftir löggjöfinni til fulls er henni auðvitað heimilt að setja sínar reglur um það. Hér er aðeins verið að tala um að löggjöfin takmarki möguleika þjóðkirkjunnar á því að vígja samkynhneigða til hjúskapar.

Varðandi umburðarlyndi gagnvart sjónarmiðum þá er ég sammála hv. þingmanni um að sýna beri sjónarmiðum umburðarlyndi. Ef það er einhver vafi um hvort við sýnum sjónarmiðum nægilegt umburðarlyndi þá tel ég að samkynhneigðir eigi í þessu (Forseti hringir.) tilfelli að njóta vafans.