135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

réttindi samkynhneigðra.

18. mál
[18:39]
Hlusta

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á því að þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og öðrum flutningsmönnum þessa frumvarps fyrir það sem þau eru að gera í dag, það sem þau eru að leggja fram. Þetta snertir fjölda fólks, ekki bara samkynhneigða heldur og aðstandendur þeirra og fjölskyldur, að ég tali nú ekki um börnin þeirra sem mætti segja að eigi rétt á því að foreldrar þeirra geti gengið í hjónaband.

Mér virðist þetta mál í raun mjög einfalt. Það snýst um að ein lög gildi í landinu, ein lög gildi í landinu um ástfangið fullorðið fólk sem vill gangast undir þá skilmála og gildi sem hjónabandinu er ætlað í skilningi okkar laga og þeirri nútímalegu stofnun sem hjónabandið er orðið. Það er ekki á hverjum degi sem Alþingi fjallar um mál og leggur til breytingar á lögum sem varða jafnmikil jafnræðissjónarmið og jafndjúpar tilfinningar og einmitt þetta mál.

Það veldur mér nokkrum vonbrigðum að ekki séu fleiri í salnum þegar við ræðum um þetta. En ég er viss um að ef hér væru fleiri í salnum, allir, þá væri meiri hluti fyrir þessu. Þetta snýst um jafnræði. Hvers á Alþingi og löggjafarsamkundan að gæta fremur en jafnræðis þegna samfélagsins?

Í þessu samhengi er dálítið athyglisvert að velta fyrir sér sögulegri þróun hjónabandsins. Oft er talað um hjónabandið eins og það hafi verið ein og ósveigjanleg stofnun í gegnum aldirnar en að sjálfsögðu er ekkert fjær sanni. Hjónabandið sem slíkt hefur tekið byltingarkenndum breytingum í tímans rás og í okkar heimshluta hefur það sem betur fer tekið þeim breytingum að færast frá því að vera stofnun og tæki ákveðins misréttis í að vera stofnun jafningja. Enn þann dag í dag, mjög víða í heiminum, mismunar hjónabandið mjög gróflega konum og hefur nákvæmlega ekkert með ást að gera heldur það að ungar stúlkur, ungar konur, eru gefnar í gegnum fjölskyldutengsl og annað. Svo mætti lengi áfram telja.

Hjónabandið hefur sem betur fer breyst gegnum söguna á Íslandi. Svona var þetta á margan hátt á sínum tíma hér hjá okkur. Það er ekki ýkja langt síðan mismunun í Bandaríkjunum og víðar aðgreindi svarta og hvíta í þessum efnum, þar sem svartir og hvítir máttu ekki giftast. Þeir voru einmitt kallaðir jafnir en bara aðgreindir. Þessi hugsun um að við séum jöfn en aðskilin er auðvitað fyrst og fremst hugsun ákveðinnar mismununar.

Ef við hugum að þeim gildum sem koma fram í hjúskaparlögunum má sjá jákvæða sögulega þróun hjónabandsins að mínu mati sem stofnunar. Þar er lífssamband tveggja jafningja sem sjálfviljugir og á eigin forsendum ganga inn í það. Þetta er mjög róttæk hugmynd sem ekki hefur verið lengi við lýði í okkar heimshluta né annars staðar. Hún er ný af nálinni, fullorðið fólk sem sjálfviljugt, fyrst og fremst vegna ástar á hvort öðru, gengst undir ákveðin heit. Í hjúskaparlögunum segir:

„Þeim ber að sýna hvort öðru trúmennsku, styðja hvort annað og gæta sameiginlega hagsmuna heimilisins og fjölskyldu.“

Í núgildandi lögum er hvergi minnst á kristilegan tilgang hjónabandsins. Við erum að tala um þau lög sem löggjafinn setur. Við erum ekki að tala um kirkjuna. Við erum að tala um hvernig við ætlum að tryggja að þeirri góðu stofnun, sem kveður á um ákveðin mannleg gildi jafningjasambands, lífssambands og trúmennsku, eigi að vegna sem best með því að fullorðið ástfangið fólk, burt séð frá kynhneigð og kyni, geti gengist undir þau lög. Þetta er frjálst samkomulag sem fólkið getur nú til dags gengið tiltölulega auðveldlega inn í og tiltölulega auðveldlega út úr, sem vel að merkja líka er mjög róttæk breyting sögulegrar þróunar. Þetta snýst, eins og ég sagði í byrjun, líka um börn, m.a. um börn samkynhneigðra. Er það ekki einmitt betra fyrir þau að foreldrum þeirra, uppalendum þeirra, sé ekki mismunað og þeir geti gengið inn í þetta lífssamband jafningja sem byggir á trúmennsku og góðum gildum?

Mér finnst óskiljanlegt hvernig fólk getur sagt að fái samkynhneigð pör að ganga inn í þessa stofnun og játa ást sína og tryggð með þessum hætti geti það gengisfellt gildi hjónabandsins og þeirrar róttæku nútímahugsunar sem þar er að baki. Ég þori að fullyrða að langflest fólk sem gengur í hjónaband gerir það vegna gagnkvæmrar ástar. Þetta snýst um að kærleikurinn fái að gilda í þessum efnum, kærleikur og jafnræði.

Því miður hefur gróft misrétti átt sér stað bæði í lögum og venjum, siðum og menningu samfélagsins gagnvart samkynhneigðum gegnum söguna, gagnvart fullorðnu fólki sem finnur fyrir einhverjum tærustu og dýpstu tilfinningum í lífinu. Þetta frumvarp til breytinga er ákveðinn lokapunktur þar sem Alþingi og löggjafinn segir: Við leiðréttum allt sem misfarist hefur, allt það sem rangt hefur verið gert og fögnum fjölbreytileikanum sem ástin og hjónabandið fela í sér.

Ég held að það hljóti að vera þverpólitísk sátt um þetta mál. Þetta er í raun ekki byltingarkennt mál vegna þess að byltingin hefur þegar átt sér stað í réttindabaráttu samkynhneigðra. Þessi breyting er í samræmi við réttindi og skyldur sem nú þegar er að finna í lögum um staðfesta samvist. Eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kom að í upphafi er þetta lokahnykkurinn á að enda mismunun og standa við þau gildi sem hjúskaparlögin kveða á um, um trúmennsku, stuðning og sameiginlega hagsmuni heimilis og fjölskyldu, að fullorðið fólk sem vill gangast inn á slíkan sáttmála fái að gera það.