135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

réttindi samkynhneigðra.

18. mál
[18:49]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæsv. forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem orðið hefur um frumvarpið. Ég tel að við séum með í höndunum mál sem eigi eftir að fá talsverða umfjöllun í allsherjarnefnd Alþingis. Ég vona að þaðan verði það á endanum afgreitt með jákvæðum hætti aftur til þingsins þannig að við getum greitt um það atkvæði.

Mig langar að segja nokkur orð í tilefni af orðum hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur sem er einn af flutningsmönnum frumvarpsins. Hún var með afar athyglisverðar vangaveltur um það hvort barneignir væru forsenda hjónabands. Við gætum talað um það lengi dags og langt fram á kvöld, við munum trúlega ekki gera það, en mig langar til að koma með ábendingu úr þingsal hvað þetta varðar.

Ef barneignir eru forsenda hjónabands er það svo í mínum huga að konur sem komnar eru yfir miðjan aldur, fram yfir tíðahvörf, gætu ekki gengið í hjónaband samkvæmt hjúskaparlögum. Fólk sem einhverra hluta vegna, af líffræðilegum orsökum eða vegna sjúkdóma, getur ekki eignast börn ætti þá ekki að geta gifst samkvæmt hjúskaparlögum. Þetta þarf að hafa í huga, þetta eru rök sem hrekja þá fullyrðingu að barneignir séu forsenda hjónabands samkvæmt hjúskaparlögum. Þetta sýnir fram á hvað við erum með veik rök gegn því að sú leið sem hér er lögð til verði farin.

Varðandi vangaveltur hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur um það hvort sú ríkisstjórn sem nú situr þurfi að renna sitt skeið á enda áður en lög af þessu tagi verða samþykkt vil ég segja við hv. þingmann og þingheim: Ég tel trú hv. þingmanns fullmikla á ríkisstjórninni að ætla að hún muni sitja út kjörtímabilið. Það kann vel að vera að styttra sé í það en okkur grunar að sá jarðvegur verði til og þær aðstæður skapist á Alþingi Íslendinga að frumvarp af þessu tagi geti farið í gegn. Það er vissulega rétt hjá hv. þingmanni að fjarvist hv. stjórnarþingmanna í málinu sker í augu.

Um leið og ég óska eftir því, hæstv. forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allsherjarnefndar vil ég vitna til orða Sólveigar Önnu Bóasdóttur í erindi sem hún flutti á einu af málþingunum sem ég gat um áðan og birt er í Kirkjuritinu, 71. árgangi, 1. hefti. Hún fjallar þar um hjónaband samkynhneigðra. Greinin heitir Hvers vegna og hvers vegna ekki? og þar segir, með leyfi forseta:

„Hvað er það þá sem hjónabandið sem tákn kallar fram hjá okkur sem lifum sem gagnkynhneigt fólk? Svar mitt er tvíþætt. Annars vegar ýtir það undir hugmyndir um yfirburði gagnkynhneigðarinnar sem hluta sjálfsmyndar og sjálfsskilnings, hjónabandið skoðað á táknrænu plani í gagnkynhneigðri menningu ritúalíserar hina félagslegu þýðingu þess að vera gagnkynhneigður. Sú þýðing er mikilvæg og hefur styrkjandi áhrif á sjálfið og sjálfsmyndina. Hjónabandið er eitt grundvallaratriði í menningu okkar til þess að festa og viðhalda þeirri sjálfsmynd. Ef ég geng ekki í hjónaband og er ekki í sambúð er ég ekki heldur fyllilega gagnkynhneigð, það vantar eitthvað mikilvægt. Hvað er það? Svarið er: Ég mun að öllum líkindum ekki eiga börn.“ — Og hér kemur tilgátan sem er um leið síðari hluti svarsins við spurningunni að ofan: „Ef samkynhneigðu fólki er gert kleift að ganga í hjónaband mun sá gerningur hrófla við sjálfsmynd okkar gagnkynhneigðra sem lítum á okkur sem fullkomnari manneskjur en samkynhneigt fólk.“

Ég legg til, hæstv. forseti, að frumvarpið verði samþykkt til þess að hroki gagnkynhneigðra sé ekki lengur til staðar í löggjöf Íslendinga, til að tryggja að þau sem unna hvort öðru njóti þess réttar sem fólginn er í hjúskaparlögunum, burt séð frá því hvort um er að ræða samkynhneigða eða gagnkynhneigða.