135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

uppkaup á jörðum og verndun landbúnaðarlands.

[13:48]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Það er auðvitað gott að bændur geti hætt að búa og farið uppréttir og með sóma eftir ævistarf sitt. En það er líka mjög dapurlegt að ungt fólk á ekki mikla möguleika til að hefja búskap í dag með því að þurfa að kaupa kvóta bæði í mjólk og kindakjöti til að hefja framleiðslu. Það er dapurleikinn í þessu máli að endurnýjun verður ekki þarna. Margir bændur hafa sagt mér að þeir líti ekki björtum augum á framtíðina, að eftir 15 til 20 ár verði miklar breytingar og hættan sé sú að búskapurinn fari í einhver hlutafélög eða stórfyrirtæki eða stórbúrekstur og að fólkið sem er að alast upp í sveitum landsins í dag verði, ef það vill vera áfram í sveitinni, að keppa við erlent vinnuafl um störf á þessum búum.

Við viljum ekki sjá slíka framtíð fyrir okkur hjá ungu fólki sem býr í sveitum landsins í dag. Ég hef stundum sagt að það væri ekki óeðlilegt að breyta framleiðslustyrkjum og beingreiðslustyrkjum í búsetustyrki þannig að venjulegt bú í sauðfjárrækt eða mjólkurframleiðslu fengi búsetustyrk og keppti síðan á markaðsgrunni með framleiðslu sína. Búsetustyrkurinn yrði auðvitað bundinn því að það væri venjulegur búskapur á þessum jörðum en styrkurinn gæfi fólki möguleika til þess að vera lengur í sveitinni og missa ekki þessa framleiðslu í hendurnar á einhverjum stórbúum sem ég held að sé ekki af því góða.

Það er auðvitað sorglegt að vita til þess að margir sem eru að flytja í sveitirnar núna borga fjármagnstekjuskatt en ekki útsvar, (Forseti hringir.) og þar af leiðandi hafa þeir engin góð áhrif inn í samfélagið eins og þeir ættu að hafa.