135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

uppkaup á jörðum og verndun landbúnaðarlands.

[13:53]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Þróunin hér á landi er lík því sem gerist í nágrannalöndum okkar sem er mjög jákvætt. Byggðirnar stækka og þurfa meira landrými og sá landbúnaður sem rekinn er næst þéttbýliskjörnunum færist fjær. Þar af leiðandi verður þetta verðmætt land og landbúnaðurinn færist út til þess svæðis sem er ódýrara.

Ég get nefnt t.d. stað eins og Hveragerði sem fyrir röskum 50 árum byggðist upp sem garðyrkjubær þar sem nýbúarnir voru fyrst og fremst garðyrkjubændur sem lögðu grunn að garðyrkjustöðvum sínum. Nú hefur það gerst undangengin ár að þessar garðyrkjustöðvar færast til svæða sem betur eru fallnar til þeirrar framleiðslu og landið er mjög dýrt og verðmætt sem byggingarlóðir. Þetta þekkist alls staðar. Sama gildir um hefðbundinn landbúnað næst þéttbýliskjörnunum. Hann færist frá og ég held að það sé einvörðungu jákvætt að þeir sem eiga þessi lönd fái sanngjarnt verð, eðlilegt verð eins og aðrir sem eiga lönd og eignir á höfuðborgarsvæðinu.

Það hefur jafnframt gerst í Árnessýslu að þar er orðin ein stærsta sumarbústaðabyggð og frístundabyggð í landinu. Þar hefur verið tekið kjarri vaxið, land sem er á hrauni og er ekkert sérlega vel fallið til landbúnaðarframleiðslu. Ég óttast því ekki það sem hefur verið að gerast hjá okkur hvað þetta varðar.

Mig langar rétt í lokin að nefna að skipulagsvaldið hvað þetta varðar, sem hv. frummælandi, Jón Bjarnason, hefur áhyggjur af, er hjá sveitarfélögunum. Sveitarfélögin hafa tök á því að skipuleggja (Forseti hringir.) og ákveða hvernig farið er með land á hverju svæði fyrir sig.