135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

uppkaup á jörðum og verndun landbúnaðarlands.

[13:59]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það skiptir miklu að bújarðir séu nýttar og að byggð haldist í sveitunum. Ábúð á jörðum tryggir að jafnaði nýtingu lands og gróður. Við getum með ýmsum hætti stuðlað að því að þótt búseta breytist sé ávinningur af því að nýta landsins gæði. Breyting styrkja úr greiðslu á hvert kíló kjöts eða lítra seldrar mjólkur yfir í búsetustyrki og landnýtingarstyrki í meira mæli en nú er væri æskileg þróun.

Af sjálfu leiðir samt sem áður að með stækkandi bústofni á býlum verða jarðir sameinaðar. Það fylgir því ef bústofninn stækkar. Mikil uppkaup auðmanna á fjölda jarða tryggir ekki búsetu og nýtingu jarðanna og vissulega má taka þá þróun til sérstakrar skoðunar. Það á að vera markmið að halda landinu sem mest í byggð því að það eru verðmæti fyrir framtíðina.

Hæstv. forseti. Við stefnum að því að Ísland verði mikið ferðamannaland í framtíðinni og það skiptir máli fyrir þann ferðamannaiðnað að landið haldist í byggð. Við ætlum væntanlega að sýna landið eins og það er með búsetu sinni, kostum og gæðum og þess vegna skiptir landnýting og landsins gæði miklu máli í framtíðinni. Það er ekki mál bænda einna, það er mál okkar allra, Íslendinga.