135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

uppkaup á jörðum og verndun landbúnaðarlands.

[14:01]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu en tel að hún hefði þurft að vera svolítið dýpri hvað sumt varðar. Ég bendi á að búvörusamningar milli ríkisins og bænda kveða á um þátttöku, greiðslur af hálfu ríkisins, bæði til að tryggja ákveðna framleiðslu, gæði hennar og hvernig framleitt sé. Í þessum búvörusamningum er ekki gert ráð fyrir verði á almennu landi. Ef við ætlum að taka það verð inn sem núna er að verða á jörðum held ég að greiðslurnar mundu heldur betur hækka.

Yrði pólitísk sátt hér á landi ef beingreiðslur af hálfu ríkisins væru að stórum hluta komnar í hendur örfárra manna, að einn aðili sem á hundrað jarðir væri kannski orðinn handhafi beingreiðslna upp á hundruð milljóna króna? Ég hef ekki trú á að sátt verði um slíkan landbúnað hér á landi. Ég held einnig að ekki verði nein sátt um það að landið lendi í eign örfárra manna eða fyrirtækja. Hér er ekki verið að tala um þá einstaklinga sem fá afmarkað land til frístundabyggðar eða slíks, heldur þegar land er keypt upp og því safnað. Ég held að það verði engin sátt um það.

Hvers vegna skyldum við ekki setja hliðstæð lög og önnur lönd? Öll lönd í Evrópu setja sér lög sem takmarka eignarhald á landi, uppsöfnun lands, og setja kvaðir á landeigendur. Nýja-Sjáland, eitt öflugasta landbúnaðarland í heimi, leggur miklar kvaðir á land, að það sé ekki tekið úr landbúnaðarnotkun. Það eru engin rök fyrir því að við ættum ekki með sama hætti að vera á verði hér því að frelsi án ábyrgðar (Forseti hringir.) í landakaupum, jarðakaupum og uppsöfnun jarða er ekki það sem við viljum hér á Íslandi.