135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

almenn hegningarlög.

184. mál
[15:54]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Í tilefni af orðum hv. þingmanns vil ég árétta það sem kemur fram í greinargerð frumvarpsins ef ég má, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu er með heildstæðum hætti leitast við að endurskoða gildandi ákvæði almennra hegningarlaga um framangreind efnisatriði“ — þ.e. þessi atriði sem við höfum verið að tala um, hryðjuverk og mansal og peningaþvætti — „með það í huga að fært sé í fyrsta lagi að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri brotastarfsemi, Palermó-samningur, frá 15. nóvember 2000 og bókun við þann samning frá sama tíma um að koma í veg fyrir, berjast gegn og refsa fyrir verslun með fólk, einkum konur og börn, og í öðru lagi að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að hægt sé að fullgilda Evrópuráðssamning um varnir gegn hryðjuverkum og Evrópuráðssamning um aðgerðir gegn mansali sem báðir eru frá 3. maí 2005.“

Síðan segir:

„Í því sambandi verður þó að gera þann fyrirvara að efni síðastnefnds samnings“ — þ.e. Evrópusamningsins um aðgerðir gegn mansali — „ kann að kalla á aðrar lagabreytingar svo unnt verði að fullgilda hann.“

Þarna kemur fram að með frumvarpinu sé verið að laga íslensk lög þannig að það sé hægt að fullgilda Palermó-samninginn og samning Evrópuráðsins um baráttu gegn hryðjuverkum.

Þegar kemur að Evrópuráðssamningnum varðandi mansalið þá þarf að athuga það mál betur og refsiréttarnefnd hefur ekki unnið það verk. Hitt liggur alveg skýrt fyrir og vafalaust verður haldið áfram að vinna að því og menn fylgjast með framvindu mála innan Evrópuráðsins varðandi þann þátt málsins.

Ég tel að það verði að líta á þetta þegar hv. þingmaður talar um að ekki sé verið að fullgilda þessa samninga. Það er rétt, að það er ekki verið að fullgilda samningana með þessu frumvarpi, en það er verið að búa í haginn svo að það sé hægt. Það er nauðsynlegt að breyta íslenskum lögum ætli menn að fullgilda slíka samninga þannig að ekki verði gap á milli landsréttar og þjóðarréttar þegar kemur að slíkri fullgildingu. Varðandi þennan Evrópuráðssamning þarf að skoða atriðin um mansal betur en að öðru leyti komum við til móts við samninginn um hryðjuverk og Palermó-samninginn sem hefur verið eitt höfuðatriðið hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur í umræðum á undaförnum árum og missirum, að búa þannig í haginn að hægt verði að fullgilda Palermó-samninginn.

Mér finnst svolítið skrýtið að þegar lagt er fram frumvarp sem gerir það kleift þá skuli málið lagt upp eins og ekki sé komið til móts við þessi sjónarmið. Við verðum að flytja þetta frumvarp og fá það samþykkt ef við ætlum að stíga það skref að fullgilda samninginn, sem í sjálfu sér er ekkert aðalatriði þegar við erum búin að færa lögin í þann búning sem við gerum með þessu frumvarpi.