135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

almenn hegningarlög.

184. mál
[15:57]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra má ekki misskilja orð mín. Ég er hlynnt því að Palermó-samningurinn og Evrópuráðssamningurinn gegn mansali verði fullgiltir og öll þau ákvæði sem þarf að leiða í lög til að svo geti orðið verði sett í löggjöf okkar. Ég er þess vegna sátt við það og hlynnt því að þær breytingar sem hér eru lagðar til í þessum efnum séu gerðar. Ég átta mig á því að það þarf að gera þessi mál í réttri röð.

Ég vil hins vegar benda á að frá árinu 2000, frá því upp úr áramótum þegar við vorum búin að undirrita Palermó-samninginn, tók ég að spyrja þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra um væntanlega fullgildingu samningsins. Mér var tjáð, snemma árs 2001, að undirbúningur málsins væri hafinn í dómsmálaráðuneytinu. Aftur gerði ég gangskör að því að inna dómsmálaráðuneytið eftir því og hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason á árinu 2005 og 2006, þegar ég starfaði í sérstökum starfshópi sem kynnti sér mismunandi löggjöf um vændi o.fl. á Norðurlöndunum og víðar. Þá skilaði starfshópurinn skýrslu til ráðherrans og fékk þær upplýsingar að í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, þ.e. í febrúar 2006, hafi verið hafin vinna við að meta hvort og þá hvaða lagabreytinga væri þörf til að fullgilda Palermó-samninginn.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að ef þessi vinna hefur staðið í ráðuneyti dómsmála síðan um áramótin 2000/2001, í sjö ár, þá þykir mér það fullgóður tími. Mér finnst það óeðlilega langur tími sem menn hafa ætlað sér í að gera þær lagabreytingar sem hér eru núna einungis undirbúnar. Ég tel mig því í fullum rétti til að gagnrýna að menn hafi ekki haft hraðari handtök.