135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

samræmd neyðarsvörun.

191. mál
[16:00]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um samræmda neyðarsvörun. Með lögum nr. 25. frá 3. mars 1995 var ákveðið að ríkisstjórnin skyldi eigi síðar en 31. desember sama ár koma upp samræmdri neyðarsímsvörun fyrir Ísland. Í framhaldi af setningu laganna var hlutafélagið Neyðarlínan stofnað um rekstur vaktstöðvar til að reka neyðarsímsvörun. Var félagið upphaflega í eigu einkaaðila en er nú að mestu í eigu opinberra aðila.

Vorið 2003 var sett þar á fót samhæfingarstöð leitar og björgunar sem jafnframt er stjórnstöð almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í almannavarnaástandi. Haustið 2004 fluttist Vaktstöð siglinga í sama húsnæði og loks flutti Landhelgisgæsla Íslands höfuðstöðvar sínar á sama stað árið 2006. Segja má að þá séu allir helstu viðbragðsaðilar við slysum og náttúruhamförum komnir undir sama þak með stuttar boðleiðir sín á milli. Varastöð fyrir starfsemina hefur verið byggð upp í húsnæði lögreglustöðvarinnar á Akureyri og hefur þar verið komið fyrir varabúnaði fyrir Neyðarlínuna og fjarskiptamiðstöð lögreglunnar.

Með frumvarpi þessu hafa lög um samræmda neyðarsímsvörun verið endurskoðuð í heild sinni og felld að þegar gerðum breytingum og nýjum aðstæðum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að rekstur vaktstöðvar verði áfram í höndum hlutafélags um rekstur slíkra stöðva. Til að tryggja að starfsemi rekstraraðilans sé í samræmi við lög og stefnu stjórnvalda skal dómsmálaráðherra gera samning við hann um fyrirkomulag, fjármögnun og þátttöku í rekstrinum, þar á meðal eftirlit með stjórn vaktstöðva.

Þá er lagt til að fellt verði á brott ákvæði núgildandi laga um sérstaka samstarfsnefnd til eftirlits og ráðuneytis um framkvæmdina og var nefndin hugsuð sem vettvangur fyrir sveitarfélögin og fleiri aðila sem vinna að skyldum verkefnum. Þykir ekki lengur þörf fyrir slíka nefnd.

Þá er í frumvarpinu lagt til að framvegis verði lögin ekki eingöngu miðuð við neyðarsímsvörun heldur við neyðarsvörun sem er víðtækara hugtak. Er það gert í ljósi þess að stöðugt fjölgar öðrum fjarskiptamöguleikum, eins og t.d. sms-skilaboðum.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan rituðum við samgönguráðherra ásamt forstjóra Neyðarlínunnar í morgun undir samkomulag við austurríska fyrirtækið Frequentis um endurnýjun á fjarskiptabúnaði Vaktstöðvar siglinga. Hann kemur til sögunnar eftir að ákveðið var að leggja niður möstrin á Rjúpnahæð vegna skipulagsmála í Kópavogi en endurstokka á fjarskiptin, gera nýtt skipulag fyrir þau og færa til nútímans. Nú er farið að vinna samkvæmt þeim samningi sem undirritaður var og gerður fyrir tilstilli Ríkiskaupa.

Virðulegi forseti. Ég hef nú í meginatriðum gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að því verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.