135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

samræmd neyðarsvörun.

191. mál
[16:08]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir stuðning hans við frumvarpið. Ég árétta það sem hann sagði, að með stofnun Neyðarlínunnar og alls þess starfs sem unnið hefur verið síðan hafa orðið byltingarkenndar breytingar á sviði öryggismála. Það kom m.a. fram á fundi okkar samgönguráðherra í björgunarmiðstöðinni við Skógarhlíð í morgun þegar við fórum og kynntum okkur starfsemi Neyðarlínunnar. Þar svara menn símtölum sem inn koma að meðaltali á 3,4 sekúndum og reynslan sýnir að ef lengri tími líður en átta sekúndur þar til svarað er þá er viðkomandi búinn að leggja á og byrjaður að hringja aftur.

Menn sjá því að brýnt er að bregðast fljótt við þegar hringt er í 112 og aðstoðar óskað. Með frumvarpinu er verið að skapa mönnum betra starfsumhverfi á þessu sviði. Jafnframt á að tryggja að starfsemin sé í samræmi við þær kröfur sem eðlilegt er að gera til opinberra fyrirtækja sem starfa á þessum vettvangi. Miklar breytingar hafa orðið á símamarkaði síðan lögin voru sett upphaflega, Landssíminn hefur verið einkavæddur og samkeppni er á símamarkaði. Við gerð og samþykkt þessa frumvarps þarf að huga að þeim aðstæðum.

Ég vil einnig láta þess getið að Neyðarlínan sér um og rekur Tetra-fjarskiptakerfið sem skiptir æ meira máli og gæta verður þess að lagaramminn utan um starfsemina sé skýr þannig að ekki sé verið að fara inn á verksvið einkaaðila sem stunda símastarfsemi. Ég vænti þess að hv. allsherjarnefnd muni fara yfir það og grannskoða hvort frumvarpið standist ekki allar kröfur sem gerðar eru á þeim vettvangi í ljósi hlutverks ríkisins annars vegar og einkaðila hins vegar á símamarkaði.