135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

fullvinnsla á fiski hérlendis.

38. mál
[16:49]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort þau orð sem voru sögð utan pontu gildi og hvort það standi þá upp á að svara. En varðandi hugmynd hv. þm. Grétars Mars Jónssonar um að 40% fari á fiskmarkað þá er þetta svar mitt við því: Þetta er áhugaverð hugmynd en hún hlýtur að bíða síns tíma.

En varðandi fiskmarkaði þá er ég þeirrar skoðunar að þrátt fyrir að það megi auðvitað finna dæmi um það mjög víða erlendis að fiskur fari þar í gegnum markaði þá er það nú svo með okkur Íslendinga að sjávarútvegur skiptir okkur svo gríðarlega miklu máli, miklu meira en í þeim löndum sem hv. þingmaður nefndi að þar geta menn leyft sér ýmis sjónarmið önnur en þau að reyna að ná út úr þessu hámarksarði og reyna að skila sem mestum arði til fyrirtækjanna.

Ég hef alla samúð með stöðu sjómanna í þessu máli og tel að það sé alveg eðlilegt að við ræðum allar mögulegar leiðir til þess að tryggja að þeir séu ekki hlunnfarnir. Ég lít svo á að tillaga hv. þingmanns sé innlegg í það mál og hljóti að koma til skoðunar síðar meir.

En eftir stendur það vandamál sem við erum að ræða hér, sem er samkeppnisstaða fiskvinnslunnar. Í mínum huga skiptir mestu máli sú spurning hvort það sé eitthvað í hagkerfi okkar núna sem gerir það að verkum að íslenska fiskvinnslan standist ekki samkeppni við erlendar fiskvinnslur. Það væri alveg gríðarlegt áhyggjuefni.