135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

fullvinnsla á fiski hérlendis.

38. mál
[16:56]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hvað varðar fyrri spurninguna um kvótaverðið, hátt kvótaverð og samkeppnisstöðu fiskvinnslunnar, þá er rétt að horfa svo á málið að það verð sem fiskurinn er seldur fyrir erlendis endurspeglar kvótaverðið. Þannig að fiskvinnslan erlendis kaupir þá hráefni á þessu verði.

Það sem skiptir máli er það að íslensk fiskvinnsla eða landvinnsla hér hafi möguleika til að keppa við fiskvinnsluna erlendis til að bjóða hærra verð. En ef það er þannig að þegar allt er vegið og metið rétt og mælt að samkeppnisstaðan sé verri þrátt fyrir það, þá er það sérstakt áhyggjuefni.

Hvað varðar seinni liðinn af fyrirspurn hv. þingmanns þá er því til að svara að ég er einn þeirra sem hef lengi haft áhyggjur af t.d. nýtingarstuðlum um borð í fullvinnsluskipum. Ég hef haft mínar efasemdir. Ég vil kannski ekki ganga lengra en að segja sem svo að ég hef haft mínar efasemdir um að þessi aðferðafræði gangi yfir höfuð upp. Ég hef lengi velt því fyrir mér hvort ekki væri hægt að koma einhvers konar vigtunarkerfum um borð í fullnustuskipin af því ég hef efasemdir um það að sú nýting sem þar náist jafnist á við þá nýtingu sem þaulæfðir fiskvinnslustarfsmenn í frystihúsum með jafnvel áratuga reynslu í því að vinna fisk ná sínum störfum. Ég leyfi mér að hafa ákveðnar efasemdir um það. Ég get auðvitað ekkert fullyrt um þetta því ég hef engar mælingar um það. En þetta er eitt af þeim málum sem ég held að væri ágætt að væri rætt meira hér í þinginu.