135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

fullvinnsla á fiski hérlendis.

38. mál
[17:00]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þegar sjávarútvegur á Íslandi er skoðaður, fjöldi fyrirtækja sem þar starfar, og það borið saman við aðrar starfsgreinar á Íslandi kemur í ljós að sennilega erum við einna best stödd í sjávarútveginum þegar kemur að samkeppnissjónarmiðum. Við getum borið það saman við matvörumarkaðinn, bankamarkaðinn og aðra stóra lykilmarkaði í samfélagi okkar, samkeppnin er sennilega einna mest á þessu sviði. Lengi hafa verið í lögum reglur um hámarkskvótaeign sem hlutfall af heildarkvóta og allt hefur það sín áhrif.

Ég get tekið undir að það væri áhyggjuefni ef sú þróun gengi um of fram að allur kvóti yrði í eigu örfárra einstaklinga eða fyrirtækja. Ég hef ekki áhyggjur af því en það er rétt að mörg fyrirtæki hafa runnið saman og þau hafa stækkað. Á sama tíma skulum við hafa í huga að heildarkvótinn hefur verið að minnka, það er orðið erfiðara en áður var að gera út sjávarútveg og fiskvinnslu á Íslandi. Fyrirtækin hafa þurft að bregðast við því, m.a. með samruna og samvinnu. Það er ekkert óeðlilegt og kannski eina leiðin fyrir greinar til að mæta auknum arðsemiskröfum og auknum tæknikröfum sem nauðsynlegt er að fyrirtækin mæti.

Ég tel það óráð að reyna að leysa vanda sjávarútvegsins með því að taka frá honum möguleikann á því að hagræða, möguleikann á að breyta framleiðsluháttum og breyta áherslum í takt við breytingar á markaði, breytingar í því hversu mikið má veiða o.s.frv. Það er nauðsynlegt að sveigjanleiki sé í greininni til þess að takast á við mjög breytilegt umhverfi. Óvissa um aðgang að markaði hefur því miður helst verið fólgin í því að við höfum þurft að skera niður kvótann, sérstaklega í þorskinum, ár frá ári. Af því hef ég einna mestar áhyggjur og ég veit að hv. þingmenn deila þeim áhyggjum með mér.