135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

fullvinnsla á fiski hérlendis.

38. mál
[17:02]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér erum við að ræða mjög mikilsvert mál. Við erum að ræða um það með hvaða hætti okkur tekst að gera verðmæti úr þeim afla sem við drögum úr sjó, hvaða atvinna fylgir því í sjávarútvegi og hvernig hún dreifist um hinar einstöku sjávarbyggðir. Þetta er allt grein af þeim meiði að menn horfa til sjávarfangsins sem undirstöðu mjög víða í hinum dreifðari byggðum landsins, undirstöðu sem skiptir svo miklu máli að byggðirnar, margar hverjar, fá ekki haldið velli ef hún er ekki til staðar. Það leiðir af sjálfu sér að menn vilja skoða allt sem liggur í nýtingunni og því hvernig með er farið og þá m.a. orsakir fyrir miklum útflutningi á óunnum fiski á erlenda markaði og mögulegar leiðir til að auka fullvinnslu innan lands.

Ég ætla að leyfa mér að fullyrða, hæstv. forseti, að þau fyrirtæki í íslenskum sjávarútvegi sem mörg hver eru ótengd útgerð, þ.e. fiskvinnsla án útgerðar, sem kaupa nánast allan sinn afla til úrvinnslu í vinnslustöð á ferskfisksmarkaði, geri, eftir því sem ég hef komist næst, mest verðmæti úr íslensku sjávarfangi, mest verðmæti á unnið kíló. Það skiptir ekki svo litlu máli, sérstaklega þegar aflaheimildir eru orðnar jafnlitlar og raun ber vitni með stefnu ríkisstjórnarinnar og tillögum um niðurskurð á þorskafla.

Þá skulum við ekki gleyma því í þessu sambandi, herra forseti, að þorskaflinn hefur löngum verið að gefa okkur upp undir 40% af öllu verðmæti sjávarfangs. Þegar svo er komið að það skiptir ekki bara máli hvernig við veiðum fiskinn heldur hvar við veiðum hann og í hvaða veiðarfæri upp á verðið fyrir afurðirnar í endanlegri sölu til neytenda á erlendum mörkuðum ber okkur að líta á málið í heild sinni. Ég held því að sú tillaga sem hér er flutt til þingsályktunar, um að auka fullvinnslu á fiski hérlendis, sé mjög þörf. Það er mjög nauðsynlegt að þetta mál verði brotið til mergjar í hv. sjávarútvegsnefnd.

Málið hefur margar hliðar. Menn deila um hvort betra sé að veiða fiskinn í botnvörpu, í net, línu eða snurvoð eða jafnvel gildrur, þó að það sé ekki mikið stundað hérlendis, og menn deila um hvort betra sé að vinna fiskinn úti á sjó eða vinna hann í landi. Niðurstaða mín er sú að mesta verðmætið fáist á hvert veitt kíló fyrir þjóðina í útflutningi þegar aflinn er veiddur í það sem kaupendur kalla veiðarfæri sem ekki hafa áhrif á umhverfið. Það er umdeilanlegt hvað hefur áhrif á umhverfið en flestir skilja það þó svo að veiðarfæri sem dregin eru hafi meiri áhrif á umhverfið í hafinu, botngerð og annað slíkt, en staðbundin kyrrstæð veiðarfæri.

Línuveiðar hafa á undanförnum árum verið að sækja í sig veðrið á nýjan leik. Margir kaupendur erlendis gera orðið kröfu til þess að fiskurinn sem þeir kaupa sé veiddur á slík veiðarfæri og menn geti sýnt fram á að veiðar þeirra raski ekki lífríki svæðisins. Það hafa menn talið sig geta sýnt fram á með kyrrstæðum veiðarfærum sem hreyfa ekki að neinu marki við botni eða botngróðri. Þetta er staðreynd máls, hæstv. forseti, og þess vegna á sú tillaga sem við ræðum meira en rétt á sér, hún er afar nauðsynleg í því samhengi sem við horfum til. Því miður hafa stjórnvöld ekki enn fengist til að endurskoða heimildir til þorskveiða á þessu fiskveiðiári en þær eru nú aðeins 130 þús. tonn eða jafnmiklar og við veiddum frostaveturinn 1918 þegar menn löbbuðu á ís frá Reykjavík til Akraness. Það hefði þótt saga til næsta bæjar ef fólki hefði verið sagt fyrir 20 til 30 árum að þannig yrði komið eftir 25 ára stjórnun þorskveiða með kvótakerfi, að við værum komnir niður í 130 þús. tonn af þorskveiði.

Þess heldur er ástæða til að vanda sig við það sem við erum að gera og reyna að fá sem allra mest verðmæti út úr veiðunum. Við höfum bent á það, þingmenn Frjálslynda flokksins, og flutt um það tillögu á þingi, að rökin fyrir þessum harkalega niðurskurði þorskaflans ættu ekki rétt á sér. Við höfum lagt til 40 þús. tonna aukningu sem væri sú besta aðgerð sem hægt væri að gera fyrir byggðirnar og besta aðgerðin sem gæti á nýjan leik lagað nokkuð stöðu fiskvinnslufólks, sjómanna og útgerðar hér á landi. Og ekki er vanþörf á, herra forseti, því að þróunin í sjávarútvegi hefur verið á þann veg að ekki veitir af að fá sem mest verðmæti fyrir hvert kíló og reyna með öllum hætti að auka aflann eins og hægt er. Skuldir sjávarútvegsins, alls 300 milljarðar kr., hæstv. forseti, sem sjást á þessari töflu, eru með þeim hætti að full ástæða er til að óttast framtíðina.