135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

fullvinnsla á fiski hérlendis.

38. mál
[17:25]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Já, til eru öfl sem vilja breyta lögunum um stjórn fiskveiða þannig að fiskurinn verði ekki lengur sameign þjóðarinnar. Það er auðvitað grátlegt að horfa upp á það að hv. þm. Illugi Gunnarsson skuli vera í þeim hópi því að það er þó ákveðin von hjá mönnum sem hafa hug á að breyta þessu kerfi til batnaðar þannig að við fáum og getum nýtt og fengið meiri arð af aflanum úr hafinu, að þeir skuli standa í þessu þrátt fyrir að það sé búið að sanna sig að þetta er gjörsamlega ótækt og ónotandi kerfi. En þeir halda samt áfram að reyna að verja þetta vegna þess að þeir eru að verja sérhagsmuni fárra útvalinna. Þeir eru að verja hagsmuni sægreifanna.

Í dag er verið að selja margar útgerðir. Í mínum heimabæ er verið að selja þrjár, fjórar útgerðir. Það eru aðilar sem eru að gefast upp. Það eru síðustu móhíkanarnir sem eru að gefast upp og leggja upp laupana í þessu núna. Þeir geta ekki meir. Þeir sjá kannski fram á að geta farið frá þessu núna án þess að lenda í gjaldþroti eða einhverjum álíka hörmungum til margra ára og þeir eru að forða sér frá þessu. Elsta útgerð í landinu sem er orðin 96 ára og hefur verið Garðinum er að öllum líkindum að hætta. Þetta er með þeim hætti að það er bara spurning um heiðarleika og að viðurkenna þessar staðreyndir. Það er ekki hægt að slá hausnum við steininn endalaust og hafna þeim staðreyndum sem liggja orðið á borðinu varðandi þetta fiskveiðistjórnarkerfi.

Fyrir daga kvótakerfisins var þjóðin að græða á sjávarútvegi alla tíð. (Forseti hringir.) Öll uppbygging á Íslandi á öllum sviðum er sjávarútvegi að þakka.