135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

fullvinnsla á fiski hérlendis.

38. mál
[17:30]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra þingforseti. Ég vil benda ágætum hv. þm. Illuga Gunnarssyni á það að velferð íslensku þjóðarinnar og grunnur að henni var lagður með fiskveiðum frá síðustu aldamótum. Í 84 ár á síðustu öld vorum við ekki í kvóta og þá varð mesta uppbygging sem orðið hefur í Íslandssögunni.

Ef kvóti sægreifanna á Íslandi í dag er metinn, gjafakvóti sem þeir hafa aldrei borgað krónu fyrir, fengu afhentan, og hann er þúsund milljarða virði ef hann færi í sölu. Þeir skulda 304 milljarða en þeir afla ekki nema 126 milljarða. Þetta er auðvitað ekki gott dæmi. Það sem bjargar þessu er það að þeir geta leigt, selt og veðsett gjafakvótann, á því hanga þeir. Þeir búa kannski til þessar tölur sjálfir, að þetta sé þúsund milljarða virði, telja þetta upp, spinna þetta upp í viðskiptum sín í milli. En þetta er svokallað markaðsverð og það er þetta sem gerir það að verkum að bankarnir eru enn þá að lána þeim.

Af hverju þarf að fella niður auðlindagjald? Af hverju eru stjórnarflokkarnir núna komnir með tillögu um að fella niður 275 milljónir af svona vel reknum sjávarútvegi? Það má heldur ekki gleyma því að við eyðum meiri olíu á flotann í dag en við höfum nokkurn tíma gert sennilega í Íslandssögunni þrátt fyrir að það sé búið að vera að fækka skipum en stækka.

Það má ekki gleyma því að við byrjuðum m.a. að setja fiskinn á fiskmarkað eftir að kvótakerfið kom, 1985, 1986 var byrjað að setja fiskinn á fiskmarkað, sem gjörbreytti stöðu margra útgerðarfyrirtækja, að ógleymdum gámaútflutningi.