135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

fullvinnsla á fiski hérlendis.

38. mál
[17:46]
Hlusta

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þá ágætu umræðu sem orðið hefur um það mál sem ég mælti fyrir, þ.e. um leiðir til að auka fullvinnslu á fiski hérlendis. Að mínu mati er sterkur samhljómur um að leita þurfi allra leiða til að það verði bæði hagkvæmt og mögulegt að fullvinna fisk sem veiddur er á Íslandsmiðum í fiskvinnslum hér á landi. Það er meginmarkmið þessarar tillögu.

Ég vil vitna áfram í það sem kom fram í máli mínu í upphafi að fiskveiðiauðlindin er sameign þjóðarinnar og verðmætin hvort heldur þau birtast í verðmæti kvóta eða í viðskiptasamböndum í verslun með fisk hafa orðið til vegna tilkomu fjölda fólks, ekki síst fyrir tilverknað landverkafólksins, íbúanna í sjávarbyggðunum vítt og breitt um landið. Landverkafólkið og sjómennirnir eiga ekki hvað síst þátt í því að byggja upp og búa að þessari auðlind sem hefur staðið að stórum hluta undir efnahagslífi og efnahagsframförum þjóðarinnar á undanförnum árum. Þess vegna er líka sárt að horfa upp á að einn hópur, einn aðili úr þessari samfléttu hefur fengið það vald, þau forréttindi að mega slá eign sinni á aflaheimildir og veiðar á fiski og að ráðstafa þeim síðan áfram. Sami aðilinn hefur fengið þetta og er líka með stærstu fiskvinnslurnar hér á landi. Réttur fólks í sjávarbyggðunum til aðgengis að þessari auðlind, til að nýta þessa auðlind til atvinnusköpunar og lífsviðurværis hefur verið skertur svo mjög á undanförnum árum að til mikils vansa er.

Það er skoðun mín og hef fundið hljómgrunn fyrir því hjá mörgum sem hér hafa tekið til máls að það sé ekki einkamál útgerðarinnar hvort fiskurinn fari óunninn og ómeðhöndlaður á markaði erlendis án þess að innlendar vinnufúsar hendur fái að fara um hann og breyta honum í aukið verðmæti. Það er ekki einkamál þessara útgerða, alls ekki, enda gera lögin um stjórn fiskveiða ekki ráð fyrir að svo sé. Ég kem að því aðeins síðar. Því er afar brýnt að sett verði sú laga- og reglugerðaumgjörð að það tryggi innlendum fiskvinnslum og landverkafólki hér á landi sama rétt til að bjóða í og vinna þann fisk sem veiddur er á Íslandsmiðum.

Halda menn t.d. að það sé ekki dapurt fyrir Bílddælinga að nýlega eða bara í gær kom áskorun frá atvinnumálanefnd Vesturbyggðar til stjórnvalda um að standa við gefin fyrirheit um að koma aftur á fiskvinnslu á Bíldudal, gefin fyrirheit um stuðning, bæði í fiskveiðiheimildum og í útvegun fjármagns, sem ekki hefur verið staðið við. Á síðustu árum og nú síðast í vor voru heimaaðilar á svæðinu hvattir til að hefja aftur fiskvinnslu á Bíldudal sem fór í gang örfáum dögum fyrir kosningar út á loforð sem þeim voru gefin um stuðning sem síðan hefur ekkert síðan orðið af. Nú verða þeir að hætta eftir að hafa lagt í þetta nokkra tugi milljóna króna, m.a. vegna þess að það er ekki hráefni á markaðnum til að fara út í fiskvinnslu. Ætli þeir vildu ekki ná í eitthvað af þessum fiski eða eiga aðgang að einhverju af þeim fiski sem nú fer óunninn í gámum til útlanda og þeir hafa engin tök á að ná í?

Hvað með fiskvinnslufólkið á Skagaströnd sem nú er verið að segja upp vegna hráefnisskorts, vegna niðurskurðar á þorskkvóta og hráefnisskorts, horfandi jafnvel á bílana keyra eftir þjóðveginum með óunninn fisk í gámum til útflutnings. Halda menn að þetta fólk vildi ekki fá aðgengi að einhverju af þessum fiski til að halda uppi vinnunni sinni? Það er ekkert réttlæti í þessu og ég efa að það sé þjóðhagslega hagkvæmt. Ég skal ekki draga dul á að fyrir einstaka útgerð sem hefur þessa heimild samkvæmt lögum er hagur í þessu, og ef henni finnst hagur í því þá gerir hún það auðvitað og lái henni hver sem vill. Ég er ekkert að gagnrýna það að útgerðaraðili í Vestmannaeyjum, á Vestfjörðum eða Norðurlandi sjái sínum persónulega hag best borgið í því að gera þetta út frá þeim gefnu forsendum sem hann starfar undir. En þegar litið er á samfélagskröfuna í heild gagnvart þessari auðlind þá er það sjálfsagður réttur að íbúar í landinu eigi a.m.k. möguleika á því að bjóða í þann fisk sem fer á markað. Þess vegna er þessi þingsályktunartillaga flutt. Og í ljósi stöðunnar, þegar verið er að skera niður þorskveiðiheimildir, þegar veiðiheimildir þjappast á æ færri hendur þá er enn þá meiri nauðsyn á að tryggja að valdi sé ekki misbeitt gagnvart innlendri fiskvinnslu og innlendum aðilum þannig að þeir hafi ekki möguleika á að bjóða eða eiga aðgang að þeim fiski sem veiddur er hér við land.

Út af umræðunni annars um fiskveiðar almennt vil ég vísa til þess að við nokkrir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða þar sem fyrsti flutningsmaður er Björn Valur Gíslason. Frumvarpinu var dreift hér fyrir nokkru síðan og verður mælt fyrir því á næstu dögum. Þar bendum við einmitt á að lögin um stjórn fiskveiða hafa mistekist í grundvallaratriðum. Þrátt fyrir margar breytingar sem gerðar hafa verið á þeim í áranna rás hefur markmiðið með lögunum alltaf staðið óbreytt, sem er númer eitt að vernda fiskstofna. Hefur það tekist með þessum fiskveiðistjórnarlögum? Nei, a.m.k. samkvæmt nýjustu ráðstöfunum og tillögum Hafrannsóknastofnunar hefur það alls ekki tekist og þvert á móti farið á verri veg þrátt fyrir þetta markmið laganna. Númer tvö að stuðla að hagkvæmri nýtingu þeirra. Það er bara mjög umdeilanlegt hvort þau hafi gert það. Númer þrjú að treysta atvinnu. Nei, a.m.k. einn liður í því að treysta atvinnu, sem er eitt af meginmarkmiðum fiskveiðistjórnarlaganna, væri þá að fiskurinn sem veiddur er á Íslandsmiðum yrði unninn hér á landi, að það sé a.m.k. viss forgangsréttur íslenskra byggða að vinna fiskinn. Það er í rauninni það sem lögin um stjórn fiskveiða kveða á um. Ef farið yrði að þeim eins og þau standa ætti ekki að heimila þennan útflutning á gámafiski, því að eitt af aðalmarkmiðum laganna um stjórn fiskveiða er einmitt að treysta atvinnu og efla byggð í landinu.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum því lagt fram frumvarp til laga, sem er mjög rökrétt framhald af þeirri stöðu sem svo rækilega hefur verið lýst í umræðunni á undan, um að endurskoða beri fiskveiðistjórnarkerfið í grundvallaratriðum, viðurkenna að nánast öll markmið fiskveiðistjórnarkerfisins hafi mistekist og eitt brýnasta málið sé að endurskoða það upp á nýtt.

Í þessu máli okkar rekjum við mjög ítarlega hver skuli vera forgangsatriði við endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu. Við leggjum þunga áherslu á að sjávarútvegurinn sé sjálfbær og við umgöngumst náttúruauðlindina á sjálfbæran hátt, að við göngum ekki á hana, látum hana frekar njóta vafans. Hvaða vit er í því núna að sjá stór og öflug togskip skarka hér alveg upp í landgrunni, upp í árósa? Eitt af höfuðbaráttumálum okkar í landhelgisstríðinu var að koma þessum stóru togskipum út fyrir 12 mílur og fá síðan að ráða hvernig við mundum nýta og umgangast fiskimiðin að öðru leyti. Nú hefur þetta verið að snúast í andhverfu sína og oft er þetta gert í skjóli þess að menn þykjast vera að starfa samkvæmt fiskveiðistjórnarlögunum sem er alveg þveröfugt.

Við leggjum líka mikla áherslu á fullvinnslu sjávarafla og það eigi bara að vera pólitískt markmið. Ég man ekki betur en að þáverandi sjávarútvegsráðherra, Árni Mathiesen, flytti fyrir líklega fjórum árum gríðarlega mikið mál inn á þingið um stór og mikil markmið í fullvinnslu sjávarafla, um að stórauka ætti verðmætasköpun með aukinni vinnslu hér á landi á fiski og fiskafurðum. Það hefur ekki verið minnst á þessi markmið í þrjú eða fjögur ár. Hvað hefur orðið af þeim? Eru þau ekki óbreytt? Þetta var fyrir einhverjar kosningar, þá var þessu mjög hampað hér.

Við leggjum líka til að sett verði í gang tilraunaverkefni, rannsóknarverkefni sem við köllum Sjómenn græða hafið. Sett hefur verið í gang í landi verkefnið Bændur græða landið sem er samstarfsverkefni sérfræðinga á sviði landgræðslu og landmeðferðar, bænda og annarra sem nýta landið, og náðst hefur gríðarlegur árangur í að endurheimta og bæta og styrkja landgæði og auka afrakstur þess. Þess vegna leggjum við einnig til að hliðstætt verkefni verði sett í gang gagnvart sjávarútveginum, að sjómenn græði hafið, til að virkja styrk og þekkingu allra aðila sem tengjast sjávarútveginum og ekki síst sjómanna og þeirra sem hafa alist upp kannski mann fram af manni með fiskimiðin úti fyrir ströndum landsins. Ég held að það þurfi að koma alveg ný hugsun inn í alla þætti sjávarútvegsins og hvernig við nýtum þessa auðlind og förum með hana, í anda sjálfbærrar þróunar eins og ég hef lagt áherslu á. Stórauka þarf fjármagn til hafrannsókna og menn tala um að fá þurfi fleiri aðila til hafrannsókna. Það má vel vera en eigum við ekki að byrja á að gera sæmilega við þá aðila sem nú þegar stunda þær. Það er vitað að fjármagn til hafrannsókna hefur stórlega verið vanrækt á undanförnum árum.

Herra forseti. Ég þakka fyrir góða umræðu um tillögu okkar um að auka fullvinnslu á fiski hérlendis og hvatningu þeirra sem hér hafa tekið til máls um að málið nái framgangi innan þingsins. Þetta er svo sannarlega mikið og mikilvægt þjóðþrifamál eins og komið hefur fram í umræðunni. Ég legg svo til að málinu verði vísað til hv. landbúnaðar- og sjávarútvegsnefndar að umræðu lokinni.