135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

stjórnarskipunarlög.

24. mál
[18:25]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að leggja orð í belg út af málinu sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir er að kynna, fyrst og fremst gagnvart því sem hún kom inn á síðast. Ég skil það eiginlega sem tvíþætt mál. Annars vegar er opinber stuðningur til stjórnmálaflokka, þ.e. hvernig heimildum þeirra er í raun háttað til að sinna því hlutverki sem við ætlumst til að þeir geri og hins vegar það sem snýr að umgjörð þingsins og starfsaðstöðu þess.

Nýir þingmenn hafa ekki gert sér fullkomna grein fyrir því fyrir fram hvernig störfum er háttað innan veggja stofnunarinnar. Það er áhugavert að læra það og tekur vissulega ákveðinn tíma. En það sem mér finnst standa upp úr er að þegar við horfum á framkvæmdarvaldið annars vegar og löggjafarvaldið hins vegar og tökum ekki þetta ákveðna mál hvað varðar þrískiptinguna, hversu klár hún er eða hvernig frá því er gengið stjórnskipulega, þá finnst mér einboðið að þingið verði að styrkja gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Ég horfi þar t.d. til fjárframlaga til þingsins, til þeirrar sérfræðiaðstöðu sem það þarf á að halda til að takast á við mjög stór mál. Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér að þingmaðurinn hafi annars vegar verið að tala um fjárframlög til stjórnmálaflokka til að draga þá úr aðkomu einkaaðila og hins vegar að aðstaða þingsins yrði bætt þannig að þingmenn hafi meiri kost á að setja sig vel inn í mál og fylgja þeim eftir á eigin forsendum án þess að þurfa allt of mikið að reiða sig á framkvæmdarvaldið, eins og mér finnst að vissu leyti raunin.