135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

stjórnarskipunarlög.

24. mál
[18:27]
Hlusta

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að styrkja þurfi þingið óháð því máli sem hér er fjallað um en ég tel líka að styrkja þurfi stjórnmálaflokkana meira. Ég bind vonir við að sú umræða sem fram hefur farið milli þingforseta og þingflokksformanna um breytingar, m.a. á ræðutíma og styrkingu á störfum þingmanna, m.a. í nefndum, leiði til niðurstöðu. Þar á að taka sérstakt tillit til stjórnarandstöðunnar.

Ég bind vonir við að úr verði breytingar sem munu styrkja þingið. Óháð því tel ég að styrkja þurfi stjórnmálaflokkana sjálfa. Þær tölur sem ég var að reyna að rifja upp í ræðu minni, virðulegi forseti, eru þannig að ef maður skoðar fjárstuðning hins opinbera við stjórnmálaflokka á Norðurlöndunum þá er Ísland með tæplega 5 millj. kr. á hvern þingmann og Danmörk með í kringum 6,6 millj. kr. á hvern þingmann. Í Svíþjóð er framlagið kringum 9,8 millj. kr. á þingmann, í Finnlandi í kringum 11,4 millj. kr. á þingmann en í Noregi, sem er með langhæstu framlögin, eru 28,3 millj. kr. á hvern þingmann.

Röksemdafærslan fyrir þessum styrk í Noregi, sem er sem sagt meira en fimm sinnum hærri en hér á landi, þetta er náttúrlega fjölmennara ríki en samt þarf að styðja við flokkana óháð. Í Noregi er talið að starfsemi stjórnmálaflokkanna sé svo mikilvæg fyrir lýðræðið í landinu og styrkja þurfi þá myndarlega til að minnka líkurnar á því að þeir þurfi að sækja til stuðnings vafasamra aðila sem gætu síðar farið að hafa áhrif á störf þingmanna.