135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

stjórnarskipunarlög.

24. mál
[18:30]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það er mikilvægt að líta öðru hverju upp úr amstri dagsins, upp úr dægurmálunum til heimspekinnar og skoða hvernig þjóðfélag okkar er uppbyggt. Í kjölfar frönsku byltingarinnar komu upp hugmyndir um að vernda borgarana fyrir ofurvaldi ríkisins með því að skipta ríkisvaldinu upp í þrennt en áður höfðu menn oft og tíðum haft einvalda við stjórn sem voru misgóðir. Sumir voru menntaðir, góðir og hugsuðu um hag fólksins en aðrir síður og fór oft saman að sami aðilinn setti lög eða reglur, framfylgdi þeim og dæmdi svo að lokum. Heimspekingar sem spruttu upp úr frönsku byltingunni sáu að þetta var ótækt og fannst mikilvægt að skipta hinu sterka ríkisvaldi í þrennt. Þaðan kemur hugsunin um þrískiptingu valdsins, til að vernda borgarann fyrir ofurvaldi ríkisins. Því er ekki haldið fram að ráðherrar eða aðrir séu vondir menn en ef vondur maður skyldi komast í ráðherrastöðu, og bæði setur lög og framkvæmir þau, er eins gott að hann sé ekki báðum megin. Það á að vera hægt að sporna við ægivaldi hans.

Frumvarpið sem við ræðum gerir ráð fyrir að ráðherrar séu ekki jafnframt þingmenn en það er brot á því skipulagi að skilja á milli framkvæmdar- og löggjafarvalds.

Það er margt í starfi Alþingis sem er athugavert í ljósi hugmynda um þrískiptingu valdsins. Vil ég þar nefna, eins og margoft áður, að Alþingi samþykkir alls konar fjárveitingar og einmitt þessa dagana samþykkja nefndir þingsins fjárveitingar til hins og þessa sem er í rauninni hlutverk framkvæmdarvaldsins. Þar sem Alþingi er eini eftirlitsaðilinn með framkvæmdarvaldinu og fylgist með því að fjármunum sé rétt ráðstafað, eru þessar framkvæmdir undanskildar, enginn hefur eftirlit með þeim. Ráðherrar geta alltaf vísað til þess að Alþingi hafi ákveðið framkvæmdina eða fjárveitingu til hennar og eru þar með lausir undan ábyrgð.

Ég hef einnig margoft nefnt að Alþingi samþykkir mjög fá lög sem samin eru af þingmönnum. Flest lög eru samin í ráðuneytum, sem er slæmt, en einnig í stofnunum sem sjá um að framkvæma lögin. Þá læðist að manni sá grunur að þar smíði embættismennirnir sér vopn í baráttu sinni við borgara en það getur verið stórhættulegt. Ekki þarf annað en líta á lög eins og skattalögin þar sem mjög einhliða er hallað á borgarann. Við getum því lagað ýmislegt ef frumvarpið verður samþykkt, þá mundi margt breytast hér á Alþingi. Ríkisstjórnin yrði meira framkvæmdarvald og Alþingi meira löggjafarvald og tæki hugsanlega að sér að semja frumvörp að beiðni ýmissa aðila. Ef einhvers staðar væri talin ástæða til að semja lög mundi Alþingi gera það, ef til vill að beiðni einstaklinga og samtaka þeirra eða ráðuneyta, ráðherra og ríkisstjórna.

Hér hefur verið talað um fækkun þingmanna og ég tel eðlilegt að menn skoði það. Ég sé enga ástæðu til að þeir 12 þingmenn sem nú gegna embætti ráðherra — þeir eru ekki til starfa í þinginu. Ekkert mundi breytast þótt þingmönnum yrði fækkað um 12 nema að hlutföllin í þingmannahópnum mundu breytast stjórnarandstöðunni í óhag, svo gæta þarf réttinda þeirra.

Margs konar ósiðir hafa viðgengist í störfum þingsins. Við 2. umr. er t.d. oft kallaður til ráðherra sem flutti málið upphaflega en menn gleyma því að málið er komið úr höndum ráðherrans. Hann flytur málið við 1. umr., síðan er það komið til nefndar og er þá nefndaformaður yfirleitt framsögumaður í málinu sem kemur ráðherra í rauninni ekki lengur við. Þess vegna finnst mér ósiður og í raun framsal á löggjafarvaldi að kalla ráðherrann til í þeirri umræðu. Eins finnst mér það ósiður þegar einstakir þingmenn kalla eftir lögum frá ráðherrum. Þótt það sé þannig í praxís þurfa menn ekki endilega að viðurkenna það í orði.

Þingið ætti að vinna meira að því að semja lög sjálft því að sá sem semur textann upphaflega setur langmest mark á endanleg lög. Hann ákveður alla uppsetningu og allir aðrir, hvort sem það er ríkisstjórn, þingflokkar eða Alþingi, þurfa að rökstyðja breytingar. Sá sem setur það fyrst upp þarf ekki að rökstyðja eitt eða neitt og hefur langmest áhrif á hvernig endanleg lög líta út. Miklu máli skiptir að það sé Alþingi Íslendinga, kjörið af fólkinu, sem semur frumvörp. Það fengi aðstoð nefndasviðs sem styrkja mætti mikið og jafnvel ráða það fólk til starfa til Alþingis sem nú starfar hjá ráðuneytum með fjárstuðningi Alþingis við að semja frumvörp. Það er því Alþingi sem borgar í raun vinnuna í ráðuneytunum þar sem samin eru frumvörp sem alþingismenn ættu sjálfir að semja eða að láta semja. Það er ýmislegt sem þetta frumvarp snertir og þótt það sé lítið að vöxtum er það í rauninni mjög afgerandi í uppbyggingu ríkisvaldsins.

Frú forseti. Skoða mætti stöðu dómskerfisins og hvernig við getum gert það enn óháðara löggjafarvaldi og framkvæmdarvaldi og þar vantar í stjórnarskrána ákvæði um Hæstarétt því að hans er ekki getið í henni. Jafnframt vantar ákvæði um að Hæstiréttur geti í vissum tilfellum orðið stjórnlagadómstóll, þ.e. kveðið á um hvort lög frá Alþingi standist stjórnarskrá, eins og hann hefur stundum gert. Þá finnst mér að hann þurfi að vera fullskipaður því að annað er ekki gott þegar Hæstiréttur fer í hlutverk stjórnlagadómstóls sem margar þjóðir hafa en við Íslendingar ekki.

Ég legg áherslu á að frumvarpið nái fram að ganga og að sú nefnd sem fær það til skoðunar líti á hvort ástæða sé til að fækka þingmönnum í kjölfarið með alþjóðastarfið í huga sem nefnt var. Ég legg áherslu á frumvarpið verði samþykkt.