135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

flutningsjöfnunarstyrkir.

136. mál
[13:42]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér hvernig best væri hægt að koma fyrir flutningsjöfnun um landið til fjarlægari staða frá höfuðborgarsvæðinu, einmitt í ljósi þess fyrirkomulags sem er í dag um landflutninga þar sem er fákeppni í heildina en kannski fleiri sem keyra eftir hringveginum. Um flutning á vöru eftir hringveginum má ætla að sé meiri samkeppni en á vegum sem liggja út af hringveginum og til fjarlægari landshluta. Ég held að það væri skynsamlegt af hálfu hæstv. viðskiptaráðherra að athuga sérstaklega hvort ekki væri rétt að útfæra flutningsjöfnunina á þann veg að hún félli til vegna flutnings utan hringvegarins, vöru sem ætlað er að fara lengra en um hringveginn og til landshluta sem eru þar fyrir utan.