135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

flutningsjöfnunarstyrkir.

136. mál
[13:45]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég held að fáir ráðherra hafi átt jafnglæsilega innkomu í fyrirspurnatíma og hæstv. ráðherra gerir hér í svari við fyrirspurn minni og er það vel að hæstv. ráðherra skuli sjá að sér og draga til baka þær fyrirætlanir sínar um að leggja af flutningsjöfnun eldsneytis.

Staðreyndin er sú að verð á 95 oktana bensíni á Þórshöfn í dag er um 134 krónur. Fyrir sambærilega þjónustu á suðvesturhorni landsins er hægt að fá sams konar bensín á 127 krónur. Það er 7 kr. mismunur á eldsneytisverði milli Þórshafnar og hér á höfuðborgarsvæðinu. Þegar menn leggja til að leggja niður flutningsjöfnunarsjóð á olíuvörum, sem hefði getað þýtt tvær til þrjár krónur í aukinn kostnað fyrir íbúa á þessum tiltekna stað, hefði getað þýtt það að 95 oktana bensín væri 9–10 kr. dýrara á Þórshöfn en á suðvesturhorni landsins. Það er einfaldlega ekki hægt að horfa upp á slíka þróun.

Ég fagna því að hæstv. ráðherra er tilbúinn að horfa til annarra landshluta en Vestfjarða þegar kemur að flutningsjöfnun og því að lækka flutningskostnað. Hins vegar vil ég benda hæstv. ráðherra á að eftir á að útfæra skiptingu þeirra 150 millj. kr. sem ætlaðar eru til Vestfjarða, þ.e. hvernig þeim fjármunum verður ráðstafað. Ég sé enga ástæðu til annars en að verja öðrum eins fjármunum til annarra landsvæða þar sem á eftir að ákveða útfærsluna í þeim efnum.

Ég vil nefna svæði eins og Norðurland vestra, norðausturhornið, suðausturhorn landsins. Öll eru þetta svæði sem glíma við mikla fólksfækkun og vörn í byggðalegu tilliti og takast á við gríðarlega háan flutningskostnað, í mörgum tilvikum hærri flutningskostnað heldur en til Vestfjarða.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra út í það réttlætismál að hann beiti sér fyrir því (Forseti hringir.) að sams konar fjármunum verði varið til þeirra svæða til að koma til móts við háan flutningskostnað, hæstv. forseti.