135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

erfðabreyttar lífverur.

71. mál
[13:49]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra um erfðabreyttar lífverur. Ég beindi fyrirspurn til hæstv. landbúnaðarráðherra í upphafi þings um erfðabreytt aðföng í landbúnaði. Ég óskaði eftir skriflegu svari og það svar er komið.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að það svar olli mér miklum vonbrigðum. Ég hef áður spurt fyrrverandi landbúnaðarráðherra um erfðabreytt aðföng í landbúnaði og eins um erfðabreytta ræktun í landbúnaði og hvort í umhverfisráðuneytinu séu uppi einhverjar varnir eða vinna til þess að meta og skoða hversu langt við eigum að ganga í ræktun og ekki síður í notkun erfðabreytts fóðurs í nær öllum landbúnaði sem tíðkast hér í dag í svína- og kjúklingarækt og hjá kúabúum.

Skemmst er frá því að segja að hæstv. ráðherra hefur ekki áhyggjur af því að nær allt innflutt kjarnfóður er erfðabreytt í dag og hæstv. ráðherra virðist leggja að jöfnu eðlilegar kynbætur og erfðabreytingar með genatískum splæsingum.

Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra hvort hún hyggist beita sér fyrir því að farið verði að fordæmi Norðmanna í vörnum gegn erfðabreyttum Norsk stjórnvöld hafa sett stranga löggjöf um erfðabreyttar lífverur, hafnað öllum umsóknum um útiræktun erfðabreytta plantna og þar er starfrækt öflug, óháð vísindastofnun um rannsóknir á áhrifum erfðabreyttra lífvera.

Hyggst ráðherra hvetja sveitarfélög til að útnefna sérstök svæði án erfðabreyttra lífvera? Slík yfirlýst svæði eru víða til í Evrópu. Telur ráðherra koma til greina að lýsa Ísland land án erfðabreyttra lífvera?

Eftir því sem ég veit best er eingöngu eitt svæði sem hefur lýst sig laust við erfðabreyttar lífverur og það er Hveragerði. En það sem veldur mér mestum áhyggjum er það andvaraleysi sem virðist vera í landbúnaðarráðuneytinu. Ég tel það óásættanlegt að eingöngu sé beðið eftir nýrri (Forseti hringir.) löggjöf og tilskipunum frá Evrópusambandinu. Við höfum búið við löggjöf um (Forseti hringir.) um erfðabreyttar lífverur og afurðir nú um nokkurt skeið og ekki farið eftir þeim.