135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

erfðabreyttar lífverur.

71. mál
[13:59]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Þuríði Backman varðandi það að miklu máli skiptir að upplýsingar séu á vöru, hvort sem það eru vörur til almennrar neyslu eða fóður fyrir skepnur, að matvæli séu skýrt merkt og fólki sé ljóst hvort í þeim eru erfðabreyttar lífverur. Það byggist á því að fólk hafi upplýst val um það hvað það vill nota og það liggi fyrir. Um það hygg ég að við séum sammála, ég og hv. þm. Þuríður Backman.

Hvað varðar rannsóknir, útiræktun og fleira, þá þarf slíkt auðvitað að fara í gegnum ferli, umsóknarferli og annað slíkt. Mér vitandi er útiræktun á erfðabreyttu byggi stunduð á einum tilraunareit hér á landi, í Gunnarsholti. Þar er búið til prótein til lyfjaframleiðslu á vegum fyrirtækisins ORF Líftækni. Önnur framleiðsla þess fyrirtækis er í gróðurhúsum að því ég best veit. Þetta er auðvitað vaktað og rannsakað og hæg heimatökin í Gunnarsholti, að gera það þar, fyrir Landbúnaðarháskólann og Landgræðsluna, ef út í það er farið.

Ég hygg hins vegar að á það muni reyna þegar við innleiðum Cartagena-bókunina að þetta regluverk þarf að vera í lagi. Það þarf að vera nokkuð strangt og í þessum efnum ber okkur að predika og viðhalda íhaldssemi.