135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

fjöldi landvarða og vinnutímabil þeirra.

101. mál
[14:01]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Nú er svo komið að menn sækjast æ meir eftir útivist í náttúrunni og við sjáum fram á aukinn fjölda ferðamanna bæði innlendra og erlendra sem á leið um náttúru Íslands og spáð er fyrir um enn meiri fjölda. Því fylgja auðvitað ákveðin vandamál hvað varðar umgengni, átroðning á viðkvæmum svæðum svo ekki sé minnst á utanvegaakstur sem því miður er sívaxandi vandamál hér á landi. Til þess að hægt sé að bregðast við þessari auknu umgengni, sem er auðvitað jákvæð að því leyti að fólk sækir hér í ósnortna náttúru og útivist, þarf að standa vel að náttúruvernd. Fyrirspurn mín varðar hluta þess sem er fjöldi landvarða og vinnutímabil þeirra.

Ég vil spyrja hæstv. umhverfisráðherra um fyrirkomulag landvörslu í friðlöndum og á náttúruverndarsvæðum, hversu mörg stöðugildi landvarða eru nú og hvar þeir eru staðsettir og hvernig starfskraftar þeirra eru nýttir utan mesta ferðamannatímans og hvort ráðherra hafi í hyggju að fjölga stöðugildum eða víkka út verksvið landvarða, til dæmis með því að þeir sinni fræðsluhlutverki í skólum á þeim svæðum þar sem þeir starfa. Enn fremur hvort ætlunin sé að fjölga landvörðum utan friðlýstra svæða og skilgreindra þjóðgarða.

Eins og heyra má er þetta kannski nokkuð margliðuð spurning. En ég tel að þetta tengist líka almennri stefnumótun í því hvernig við ætlum að framfylgja náttúruverndaráætlunum þeim sem hér eru samþykktar. Viðfangsefni landvarða eru margvísleg. Þetta er það fólk sem er hér á vettvangi, getum við sagt, úti í náttúrunni, þekkir mjög vel þau umgengnisvandamál sem þar eru til staðar og hefur eftirlit með umgengni um svæði sem er gríðarleg vinna í ljósi þessa aukna átroðnings sem ég hef hér lýst.

Nærtækt dæmi fyrir mig sem Reykvíking er auðvitað Reykjanesið og umgengnin um þann fólkvang sem er oft og tíðum hreint skelfileg. Við sjáum það á sárum í landinu út af utanvegaakstri. Ég var stödd á hverasvæðinu í Krýsuvík á ferð þar í sumar og horfði bara á tómar kókflöskur þar liggjandi eins og eftir 17. júní. Mér finnst greinilegt að þarna þurfum við að taka okkur á. Annað viðfangsefni er svo fræðslan sem ég tel að landverðir geti sinnt bæði innan skólakerfisins og á annan hátt. Þó að fyrirspurnin sé margliðuð tengist hún kannski fyrst og fremst því hvernig þessum fjölda er háttað núna, hvort til standi að fjölga landvörðum og víkka út verksvið þeirra og hvort fyrir liggi einhver stefnumótun í ráðuneytinu um hvernig ráðuneytið sér fyrir sér að landvörslu verði hagað núna með sívaxandi umgengni og ágengni.