135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

fjöldi landvarða og vinnutímabil þeirra.

101. mál
[14:04]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir þessa viðamiklu fyrirspurn. Ég vil segja áður en ég hef lesturinn að við hæstv. iðnaðarráðherra — en hann tekur við ferðamálum um áramótin ef Alþingi samþykkir það í haust. Þá færast þau verkefni yfir í það ráðuneyti — við höfum bæði fullan hug á því að vinna mjög þétt saman í þessum tveimur ráðuneytum að ferðaþjónustu og ferðamennsku sem er þá í takt við umhverfis- og náttúruvernd. Ég vil bara koma þessu á framfæri.

Störf landvarða eru margháttuð og ráðast að miklu leyti af eðli svæða og staðsetningu þeirra. Öllum landvörðum er afhent erindisbréf og handbók sem er sniðin að því svæði sem þeir starfa á. Helstu störf landvarða eru einkum að fylgjast með framkvæmd náttúruverndarlaga, reglugerða eða auglýsinga um viðkomandi svæði, reglugerða um takmarkanir á umferð í náttúru Íslands og annarra reglugerða og laga sem eiga við hverju sinni. Þeir taka á móti gestum, veita upplýsingar, til dæmis um náttúrufræði, landshætti, gönguleiðir, sögu, gistingu og þjónustu á svæðinu, undirbúa og sjá um gönguferðir og aðra fræðslu um náttúru og sögu svæðanna, halda dagbók, vinna að gagnasöfnun og koma með tillögur til úrbóta um rekstur svæðanna, sjá um viðhald á göngustígum og öðrum mannvirkjum samkvæmt fyrirmælum Umhverfisstofnunar og eru þess viðbúnir ef slys ber að höndum að veita fyrstu hjálp, taka þátt í leitaraðgerðum og kalla til lögreglu og leita aðstoðar hennar ef þörf krefur.

Landverðir sem eingöngu starfa á sumrin koma að jafnaði á svæðin um miðjan maí og starfa fram í ágúst eða til ágústloka.

Umhverfisstofnun hefur undanfarin sumur ráðið landverði til starfa á 13 friðlýstum svæðum í umsjón stofnunarinnar. Flestir landverðir eru skilgreindir sem árstíðabundnir starfsmenn og er hefð fyrir að skilgreina starf þeirra í fjölda vinnuvikna yfir sumarið. Sumarið sem leið, núna 2007, voru 35 landverðir starfandi á friðlýstum svæðum og þjóðgörðum í umsjón Umhverfisstofnunar. Auk þess störfuðu níu fastráðnir starfsmenn á fjórum friðlýstum svæðum.

Í Skaftafellsþjóðgarði voru fjórir starfsmenn, í þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum tveir, þjóðgarðinum Snæfellsjökli tveir og í Mývatnssveit einn heilsárslandvörður. Þessir starfsmenn sinna líka starfi landvarða þótt mismikið sé. Í tengslum við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs nú í vetur mun þjóðgarðsvörðum verða fjölgað um fjóra og landvörðum fjölgar sömuleiðis.

Þjóðgarðsverðir verja sem nemur 75% af tíma sínum yfir sumarmánuðina til landvörslustarfa og miklu minna hlutfalli skiljanlega, eða um 20%, aðra mánuði ársins. Heilsárslandverðir eða sérfræðingar í þjóðgörðunum eru í fullu starfi á tímabilinu maí til september en svona um það bil 60% yfir vetrarmánuðina. Starfskraftar heilsárslandvarða utan mesta ferðamannatímans eru nýttir með ýmsu móti til þess að hanna og setja upp skilti, semja fræðsluefni, taka á móti skólabörnum, gera samantekt um ýmis mál sem snerta náttúruvernd og náttúrufar og sjá um viðhald, undirbúa komandi ferðatíma og svo framvegis.

Á friðlýstum svæðum starfar auk þess á hverju sumri fjöldi sjálfboðaliða við gerð og viðhald göngustíga, göngubrúa og annarra mannvirkja tengdum ferðamönnum. Framlag þeirra er ekki talið með í þessari upptalningu. En ég sá það í yfirliti sem ég hef undir höndum að starfsframlag sjálfboðaliða mælist ekki bara í tugum vikna heldur í mörg hundruð vikum á ári í þessu starfi. Umsjón þessa starfs er í höndum sérfræðings hjá Umhverfisstofnun.

Landverðirnir gegna mjög víðu hlutverk í dag eins og upptalningin hér í upphafi gaf til kynna. Það fer auðvitað svolítið eftir því hvar þeir starfa og hvers eðlis svæðið er og hvar þeir eru á landinu. Þeir gegna miklu fræðsluhlutverki og halda fyrirlestra og annað slíkt og hafa einnig tekið þátt í stofnun náttúruskóla, koma að menntun annarra landvarða og undirbúa landvarðanámskeiðin.

Ég þarf líklega að klára svarið í síðari ræðu minni.

Hvað það varðar að fjölga landvörðum utan friðlýstra svæða hygg ég að staðan sé þannig að fyrst þurfi að einbeita sér að því að fjölga þeim á friðlýstum svæðum, í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum áður en við getum farið að hugsa um önnur svæði þó svo að það sé auðvitað þannig að til dæmis sveitarfélögum sé algjörlega í sjálfsvald sett (Forseti hringir.) að efna til slíkrar starfsemi og styrkja hana.