135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

fjöldi landvarða og vinnutímabil þeirra.

101. mál
[14:09]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil leggja orð hér í belg um mikilvægi starfa landvarða. Það er alveg ljóst að starf þeirra hefur eflst afar mikið hin seinni ár. Á sínum tíma var starfið svolítið annars eðlis. Þetta var oft ungt fólk í ævintýraleit. En þetta er með allt öðrum hætti í dag. Þetta eru orðnir mjög sterkir fagaðilar sem leggja sig afar mikið fram í sínum störfum og eru geysilega mikilvægir. Það er alveg ljóst að við erum að sjá fram á 10% aukningu ferðamanna á Íslandi á ári hverju og mjög mikill hluti af þessum ferðamönnum fer um landið okkar og sækir hin friðlýstu svæði heim. Það er alveg ljóst að okkur vantar fleiri landverði til starfa til þess að taka vel á móti þessu fólki. Landverðir kenna fólki að lesa náttúruna og þeir passa að allt fari vel fram og eru fólki til aðstoðar. Ég tel brýnt að fjölga landvörðum og ég er sammála hæstv. umhverfisráðherra um að það beri að einbeita sér að þeim stöðum sem nú þegar eru friðlýstir og síðan verði þá hitt að koma seinna, en það sé forgangsröðin.