135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

kortlagning vega og slóða á hálendinu.

121. mál
[14:16]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég spyr hvort bráðlega sé að vænta niðurstöðu verkefnis sem felur í sér kortlagningu vega og slóða á hálendinu. Í dag ríkir hálfgert villtavestursástand á hálendinu varðandi það hvaða vegir eru merktir og hverjir ekki. Vegagerðin er veghaldari fyrir númeraða vegi en sveitarfélögin eða orkufyrirtækin fyrir svokallaða almenna vegi. Síðan er fjöldinn allur af vegum og slóðum munaðarlaus þar sem enginn er veghaldari og þeir eru því ekki merktir almennilega. Menn vita ekki hvort þeir eru að keyra utan vegar eða ekki ef keyrt er á þessum vegum og slóðum og eyða þarf þeirri réttaróvissu.

Árið 2004 setti sú er hér stendur af stað starfshóp sem hafði það hlutverk að gera tillögu um hvaða vegir og slóðar í óbyggðum skyldu teljast til vega. Markmiðið var að fá fram tillögu sem yrði síðan grundvöllur fyrir samráði við sveitarfélög og önnur hagsmunasamtök til að komast að niðurstöðu um hvað teljist vegur og hvað slóði og hvar ekki skuli keyra. Þessu verkefni átti að ljúka tveimur árum að mig minnir en því er ekki lokið.

Ég hef verið í talsverðum samskiptum bæði við Vélhjólaíþróttaklúbbinn (VÍK), og ég nefni þar Jakob Þór Guðbergsson sem er formaður umhverfisnefndar hans, og Ferðaklúbbinn 4x4, en þar er Jón G. Snæland líklega sá einstaklingur sem þekkir slóða hvað best á hálendinu og er kallaður slóðríkur í þeim hópi, hann veit um alla slóða. Þessir aðilar eru sammála um það, þeir sem eru innan VÍK og 4x4, að klára verði þetta verkefni sem fyrst til að allir séu með það skýrt hvar má aka og hvar ekki. Við viljum öll hafa þetta skýrt af því að við viljum ekki hafa þessi mál í ólestri og alls ekki þessir aðilar.

Landmælingar Íslands og Ferðaklúbburinn 4x4 hafa verið að vinna við það verkefni að skilgreina þessa vegi og slóða og það hefur gengið þokkalega en þó skilst mér samkvæmt mínum upplýsingum að hægt væri að setja miklu meiri kraft í það verkefni, það þurfi bara að auka afköstin. Mér skilst að jafnvel væri hægt að flýta verkefninu um helming og klára það á einu til tveimur árum ef Ferðaklúbburinn 4x4 framkvæmdi mælingarnar sjálfur. Þá yrði að fara eftir viðmiðum Landmælinga, þ.e. að keyra undir 40 km hraða og mæla á tveggja sekúndna fresti til að það yrði nógu marktækt. Ég vil því nýta tækifærið, virðulegi forseti, og spyrja hæstv. umhverfisráðherra: Kemur til greina að auka afköstin í ljósi þess að þetta er svo mikilvægt út af öryggismálum, ferðamannamálum, beitarmálum og ekki minnst út af utanvegaakstri?