135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

kortlagning vega og slóða á hálendinu.

121. mál
[14:26]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Já, þar liggur efinn eins og niðurstöður héraðsdóma hafa sýnt. Þegar kortlagningu er áfátt og um marga slóða er að ræða þá er eins og hin algilda regla að utanvegaakstur er bannaður með lögum víki til hliðar, svo einkennilegt sem það er. En það er líka rétt hjá hv. þingmanni að þetta er stórt verkefni og flókið og það hefur stækkað á leiðinni, ef þannig má að orði komast. Ekkert af þessu verður gert nema í samvinnu við sveitarfélög og landeigendur og aðra sem hlut eiga að máli en ég vænti þess að þeir sem bera ábyrgð, eiga lönd eða eru stjórnendur sveitarfélaga eða aðrir sem þurfa að taka þátt í að koma þessu máli á koppinn séu allir af vilja gerðir, af því að það eru mjög ríkir hagsmunir fyrir okkur öll að kippa þessu í liðinn og koma í veg fyrir utanvegaakstur. Þá skiptir ekki máli hvað sveitarfélagið heitir, þetta eru almannahagsmunir, hagsmunir okkar allra og náttúrunnar.